144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og Lenín sagði: Í hjarta okkar erum við öll sósíaldemókratar, og það gleður mig að hv. þingmaður vill reyna að rata hið sósíaldemókratíska meðalhóf í þessu og skoða blandaða leið.

Hún hitti akkúrat naglann rakleiðis á höfuðið þegar hún sagði að stóra fréttin í þessu væri auðvitað sú stefnubreyting sem felst í því að verið er beinlínis að opna fyrir það sem aldrei hefur verið gert áður, að menn taki gjald fyrir aðgengi að stöðum sem eru í einkaeigu. Ég spurði hv. þingmann um það hvort hún læsi þetta út úr frumvarpinu og hún er þeirrar skoðunar, alveg eins og stallsystir okkar, hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir, var hér í gær.

En til þess að taka af allan vafa um það hver er afstaða ráðherrans þá langar mig til þess að lesa upp fyrir þingheim og hv. þingmann af heimasíðu ráðuneytisins þar sem spurt er hvort náttúrupassinn komi í veg fyrir gjaldtöku einkaaðila á einstökum ferðamannastöðum. Svarið er eftirfarandi, með leyfi forseta: (Forseti hringir.)

„Nei, einstakir landeigendur geta eftir sem áður (Forseti hringir.) í krafti eignarréttar síns rukkað aðgangseyri á sína staði.“ (Forseti hringir.)

Það þarf ekki frekari vitnanna við.