144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að það hafi komið sæmilega skýrt fram í fyrri ræðu minni í þessu máli að ég mun aldrei samþykkja frumvarpið eins og það er úr garði gert og nægði mér það eitt til að með því mundi almannarétturinn til frjálsrar farar um landið sæta umfangsmiklum og algerlega ástæðulausum skerðingum á svæðum þar sem engin ástæða og engin rök standa til slíks.

Það er tvennt annað efnislegt sem ég er mjög ósáttur við í þessu frumvarpi og mundi leiða af samþykkt þess óbreytts og ég tel mikla afturför frá gildandi lögum um gistináttagjald og gildandi lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Annars vegar mundi föst hlutdeild þjóðgarða og friðlýstra svæða í tekjustofninum hverfa. Hún er lögbundin og tryggð í dag með því að 40% af gistináttagjaldinu ganga til þjóðgarða og friðlýstra svæða, 60% renna í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Hins vegar fæ ég ekki betur séð en að í endurskilgreiningunni á hlutverki Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í þessu frumvarp sé sú áhersla horfin sem er í gildandi lögum og á að byggja upp nýja áfangastaði þannig að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða styrki ekki bara úrbætur á þegar fjölsóttum stöðum heldur leggi líka fjármuni í að fjölga valkostunum með því að búa til nýja segla sem draga umferðina út á fleiri svæði. Það væru hrapalleg mistök að fella ákvæði úr lögunum um að ráðstafa að einhverju leyti þeim fjármunum sem við leggjum í uppbyggingu innviða í það verkefni. Eitt það brýnasta sem þarf að gera til þess að landið ráði við álagið af vaxandi ferðamannafjölda er að fjölga hliðunum inn í landið og fjölga áhugaverðum áfangastöðum eða opna aðgengi að þeim sem víðast um landið.

Varðandi gistináttagjaldið þá hafa menn hér talað það mikið niður. Hæstv. ráðherra er að mínu mati á miklum villigötum þegar hún til varnar þessu máli heldur óskynsamlegar ræður um hvað gistináttagjaldið sé ómögulegt og aðallega að það gefi ekki nógar tekjur. Það er einfalt að ráða bót á því og hækka það. Í öðru lagi hefur hæstv. ráðherra sagt að náttúrupassinn hafi svo mikla yfirburði vegna þess að þá greiði erlendir ferðamenn mest. Þetta er á misskilningi byggt. Hæstv. ráðherra er staðin að verki að hafa ekki kynnt sér þróunina undanfarin ár, sem hefur leitt til þess að 80% gistinátta í landinu í dag eru keyptar af erlendum ferðamönnum. Það hlutfall hefur snarhækkað á árunum frá hruni og með hinum mikla vexti undanfarin ár, farið úr rúmum 60–70% í rétt um 80% í fyrra, þannig að gistináttagjaldið stenst fyllilega samjöfnuð við náttúrupassann að því leyti að vera að uppistöðu til borið af erlendum ferðamönnum. Munurinn er sá að það fangar nánast alla erlenda ferðamenn sem gista eðli málsins samkvæmt á einhverjum gististöðum. Það tekur til dæmis til þess hluta erlendra ferðamanna sem mundu ekki kaupa náttúrupassa, þ.e. þeirra sem koma í viðskiptaferðir eða helgarferðir bara til Reykjavíkur og næsta nágrennis og mundu aldrei fara á staði þar sem náttúrupassans þyrfti við, kæmu til Reykjavíkur og færu í Bláa lónið í bakaleiðinni og þyrftu ekki að sýna neinn náttúrupassa. Auðvitað mundu þeir ekki kaupa hann. Við mundum missa talsverðan hóp erlendra ferðamanna sem sæi það strax að hann þyrfti ekkert á náttúrupassa að halda. Ég tel því að gistináttagjaldið í breyttri útfærslu og með þessum rökum sé betra, meira að segja að því leyti sem ráðherrann finnur því helst til foráttu.

Hvað á að gera, herra forseti? Það þarf að taka á þessu máli og það þarf að leysa það. Þetta þing verður að gera það. Ég skal reyna að hlaupa yfir það á einni mínútu.

Í fyrsta lagi á að samþykkja aukafjárveitingu í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða í ár. Það koma engar viðbótartekjur inn í hann af náttúrupassa sem aldrei verður. Það þýðir ekkert annað. Best væri auðvitað að leggja fram fjáraukalagafrumvarp núna strax og ákveða að setja 350–500 millj. kr. í viðbót í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða í ár þannig að hægt væri að nota sumarið til framkvæmda.

Í öðru lagi á að taka gistináttagjaldið og útfæra það betur. Það á að hækka það í 250–300 kr. á hótel, þ.e. um 2 evrur, og hafa það svo 100 kr. á gistiheimili og farfuglaheimili og helst ekki neitt á tjaldstæði. Það á að gera ráð fyrir því að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða geti haft tekjur af bílastæðagjöldum þar sem ríkið hefur látið malbika bílastæði við fjölsótta ferðamannastaði og rútur koma með hópferðir og leggja. Þær geta vel borgað 1.000 kr. í stöðugjald fyrir það. Að mínu mati á ekki að útiloka að fjórði eða þriðji kompónentinn í þessu verði komugjald til landsins yfir háannatímann, (Forseti hringir.) gjald sem leggst á farseðla til Íslands mánuðina frá maí til september (Forseti hringir.) þegar náttúran þarf mest á því að halda að henni sé komið til varnar.