144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var mjög gott að heyra í ágætri ræðu hv. þingmanns að hann leggur til gistináttagjald. Það er alla vega byrjunin, menn geta þá byrjað að ræða það. Hv. þingmaður vill reyndar hækka gjaldið allverulega sem getur valdið því að staðir sem bjóða mjög ódýra gistingu fari að borga nokkuð stórt hlutfall af tekjunum í gistináttagjald. En hann nær að sjálfsögðu ekki utan um þá svörtu atvinnustarfsemi sem því miður virðist vera í gangi varðandi gistinætur hérna, alla vega í 101 Reykjavík.

Svo vill hv. þingmaður bæta við, til að flækja kerfið pínulítið, og hafa komugjöld líka og þá frá maí til september. Þá fer þetta að verða dálítið skrautlegt allt saman fyrir ekki hærri upphæð. Ég hugsa að hvort tveggja dugi ekki til að ná þeim tekjum sem passinn góði, sem frumvarpið gengur út á, tryggir. Og hvort tveggja virkar illa á verðteygni þeirra sem ætla að koma til Íslands, annars vegar komugjaldið, þ.e. farmiðinn, og hins vegar gistingin.

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Er ekki náttúrupassinn ágætislausn á þessu, að ná til þeirra sem njóta? Svo náttúrlega verður starf í hv. nefnd, sem ég geri ráð fyrir því að fari í gegnum þessa kosti, og þetta verður allt til umræðu, kostir og gallar gistináttagjalds, komugjalds og síðan ferðapassans eða náttúrupassans. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er þetta ekki ágætisveganesti fyrir hv. nefnd til að vinna út frá og vinna að, vegna þess að þegar hæstv. ráðherra ræddi um málið fyrst lagði hún til að nefndin gerði á því skynsamlegar breytingar?