144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Þau voru á dálítið neikvæðum nótum og ég var eiginlega að fiska eftir einhverju jákvæðu. Ég er ekki hræddur við eitt né neitt. Ég benti á að það væru hugsanlega einhver skattsvik í sambandi við gistingu hérna í 101, (Gripið fram í.)en það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að leggja á gistináttagjald, ég sagði það ekki. (Gripið fram í: Hækkun virðisaukaskattsins.) Og hækkun virðisaukaskattsins, það er sama málið þar nema að það er auðveldara að tékka af virðisaukaskatt en margt annað. Ég var ekki að útiloka eitt né neitt.

Það sem ég var að kalla eftir var hvort hv. þingmaður, nú veit ég ekki hvort hann er í nefndinni sem fær málið til skoðunar en það sitja örugglega einhver flokkssystkini hans þar, gætu þau ekki hugsað sér að fara í gegnum alla kosti og galla þeirra leiða sem menn hafa bent á? Þær eru þrjár; það er komugjald, það er gistináttagjald og það er náttúrupassi. Geta menn ekki farið í gegnum kosti og galla leiðanna og tekið svo ákvörðun?