144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég kalla það ekki að vera neikvæður að leggja hér til konkret það sem ég tel skynsamlegast að gera. Það er að breyta og útfæra betur gistináttagjaldið. Það er að mínu mati mjög auðvelt að ná því upp í um 400–500 millj. kr. tekjustofn, mjög auðvelt.

Best væri auðvitað að það væri hlutfallslegt miðað við söluverð gistingarinnar, eins og það er í mjög mörgum löndum. Veit hv. þingmaður það að á hóteli hérna rétt við Austurvöll borga amerískir ferðamenn 700 dollara fyrir nóttina í júlí? Hvað er 100 kr. gistináttagjald af því? Ég meina, menn verða að tala inn í raunveruleikann. Þegar verið er að selja hótelherbergi á fleiri tugi þúsunda eru 100 kr. hlægilegar. En það er vissulega dálítil upphæð ef verið er að selja inn á farfuglaheimili fyrir kannski 1.000 kr. eða gistiheimili upp á 3.000 kr. Þess vegna þarf að breyta því og þannig var það nú upphaflega lagt fyrir þingið.

Síðan eru það bílastæðagjöld. Þegar komin eru uppbyggð bílastæði á kostnað ríkisins þar sem tugir rútna og hundruð bíla leggja á hverjum degi, hvað með að taka þar inn nokkur þúsund kónur (Forseti hringir.) og síðan komugjöld yfir háönn, sem er mjög einfalt að útfæra og mjög (Forseti hringir.) sterk rök standa fyrir að séu einmitt þannig, (Forseti hringir.) komugjöld á háönninni en ekki yfir vetrartímann?