144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmanni varð tíðrætt um að nefskatturinn sem hann er ákafur talsmaður fyrir, náttúrupassanefskatturinn, sé ekki há fjárhæð. Það er mér alveg nákvæmlega sama um. Ég er alveg tilbúinn að borga þess vegna, ef ég er alveg sáttur við útfærsluna á því og veit að það fer til góðs málefnis, 5 þús. kr. eða 10 þús. kr. árlega í að hlúa að náttúru Íslands. En ég ætla ekki að borga krónu fyrir það að af mér sé hafður rétturinn, sem ég tel að fylgi því að búa í þessu landi, til að fara frjálsri för um landið. Það ætla ég ekki að gera og stend við það og skammast mín ekki fyrir af því að ég tel það ólög og ég tel að það mundi ekki standast fyrir dómi. Ég mundi sækja slíkt mál alla leið áður en ég færi sjálfviljugur að borga slíkt gjald.

Ég labbaði einu sinni skáhallt endilangt Ísland, eins og skáldið Örn Arnarson kemst að orði í vísu, þegar hann gekk frá Langanesströnd og suður til náms, að vísu í hina áttina, frá Reykjanestá og norður á Langanesfont. Leið mín lá til dæmis um Reykjanesfólkvang, hún lá um Mosfellsheiði, gamla konungsveginn, niður á Þingvelli, um Almannagjá, upp Vellina, inn fyrir Ármannsfell, að Hofmannaflöt, um Goðaskarð og austur Eyfirðingaveg hinn forna. Ég gekk að mestu leyti fornar gönguleiðir. Ég býst við því að á svona fjórum stöðum hefði ég þurft að sýna náttúrupassa ef þau ólög hefðu verið komin á.

Ég ætla ekki baráttulaust að láta þennan rétt manna til að fara friðsamlega og með góðri umgengni um sitt land niður falla. Þessi rök hv. þingmanns og annarra sem eru að reyna að mæla þessu bót standast einfaldlega ekki. Það er ekki þannig að á öllum þessum svæðum sé eitthvert vandræðaástand.

Dettifoss er í Vatnajökulsþjóðgarði og hann mundi væntanlega falla undir náttúrupassann. Ef ég kem að Dettifossi að austan til að horfa á hann, eins og mér er tamt að gera, hvaða aðstöðu er ég þá að nota? Það er bert grjótið sem gengið er á og engin uppbygging, hún er vestan árinnar, en ætti ég samt að sýna náttúrupassa? Það gengur ekki upp. Það væri ólögmæt skerðing á almannaréttinum, að mínu mati algerlega klárlega, sem engin rök stæðu fyrir.