144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir gott að hv. þingmaður hafi látið af því að fara með flím um almannaréttinn. Ég vil segja það ærlega að mér finnst vænt um að heyra hjá honum að honum finnst almannaréttur mikils virði, gott ef hann sagði ekki í ræðu sinni áðan að hann væri helgur. Ég hef þá haft hv. þingmann fyrir rangri sök, a.m.k. í huga mínum, því að ég hef hlustað á hann tala mjög stíft um eignarréttinn og stjórnarskrána annars vegar og hins vegar almannaréttinn og mér hefur skilist af máli hans fram að þessari ræðu að hann líti svo á að eignarrétturinn ýti öllu öðru frá út yfir gröf og dauða. Fínt. Við erum þá sammála um það. Síðan getum við reynt að kanna hvernig hægt er að koma þessu hvoru tveggja saman í þokkalegt nábýli.

Ég er alveg sammála honum að almannarétturinn getur við sérstakar aðstæður valdið hættu. Tökum til dæmis Herðubreiðarlindir, eitt af þeim landsvæðum sem eru undir ágangi sem er mjög erfitt að sjá fyrir sér að verði óskaddað með hinum vaxandi ferðamannastraumi. En hvorki sú tillaga eða tillögur sem hv. þingmaður hefur talað fyrir né ég til þessa bjarga því máli.