144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að fara nokkrum orðum um það mál sem er til umræðu og hefur valdið miklum deilum í samfélaginu og mun gera það áfram.

Fyrst í framhaldi af þeirri umræðu sem hér hefur spunnist um almannaréttinn og stöðu hans gagnvart einkaeignarrétti samkvæmt stjórnarskrá er vert að hafa í huga að almannarétturinn er grunnþáttur í réttarkerfi þjóðarinnar rétt eins og einkaeignarrétturinn. Tilkoma einkaeignarréttarins ruddi ekki almannaréttinum til hliðar. Almannarétturinn, rétturinn til frjálsrar farar, öðrum að skaðlausu, má líkja við ítak sem þjóðin á í öllum þeim jörðum sem lúta einkaeignarrétti. Þetta er með öðrum orðum venjuhelguð takmörkun á einkaeignarrétti þeirra sem eiga eignarlönd. Það er því ekki þannig að almannarétturinn sé með einhverjum hætti andstæður einkaeignarréttinum. Hann er eðlileg takmörkun og felur í sér eðlilega takmörkun á einkaeignarráðum.

Í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar er að mínu viti farin mjög vanhugsuð leið, óskynsamleg, til að leysa úr afmörkuðum vanda. Vandinn er sá sem hér var lýst ágætlega af hv. þm. Pétri H. Blöndal áðan. Sums staðar er of mikill ágangur til að viðkvæmar náttúruperlur þoli þann fjölda sem þær vill sjá. En þá borgar sig að hrapa ekki að ályktunum á grundvelli staðreynda. Það er ekki þannig að þetta eigi við um allar náttúruperlur, það er ekki þannig að þetta eigi við um allar náttúruperlur jafnt. Grundvallarhugmyndin um gjaldtöku hlýtur að vera í samræmi við áhættuna sem við stöndum frammi fyrir um að náttúran spillist.

Hæstv. ráðherra hefur í umfjöllunum sínum um málið oft vitnað til þess að gjaldtökuheimild sé í gildandi náttúruverndarlögum og í þeim náttúruverndarlögum sem bíða gildistöku og voru samþykkt hér á útmánuðum 2013. Þar er þó vert að hafa í huga að gjaldtaka er þar bundin við náttúruverndarsvæðin, skilgreind náttúruverndarsvæði, ekki hvern einasta ferðamannastað, ekki það sem hér er kallað; staður sem hefur aðdráttarafl fyrir ferðamenn vegna náttúru og sögu. Og þarf ekki einu sinni að vera náttúruvætti, þarf ekki einu sinni að vera náttúrutengdur, getur þess vegna verið sögusafn eða sögustaður.

Í núgildandi náttúruverndarlögum eru náttúruverndarsvæði skilgreind sem friðlýst svæði, þ.e. þjóðgarðar og friðlönd, fólkvangar. Önnur svæði og náttúrumyndanir sem eru á náttúruminjaskrá og afmörkuð svæði á landi og sjó sem njóta verndar samkvæmt öðrum lögum vegna náttúru eða landslags. Það er sem sagt skýrt afmarkað hvaða svæði koma til greina. Og gjaldtakan, hver getur hún orðið samkvæmt 92. gr gildandi náttúruverndarlaga? Jú, hún getur verið þannig að: „Umhverfisstofnun eða sá aðili sem falinn hefur verið rekstur náttúruverndarsvæðis getur ákveðið gjald fyrir veitta þjónustu. Rekstraraðili […] getur enn fremur ákveðið sérstakt gjald fyrir aðgang að svæðinu ef spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum og skal tekjum af því varið til eftirlits, lagfæringar og uppbyggingar svæðisins eða aðkomu að því.“ Sem sagt ef tjón verður á svæðinu eða yfirvofandi tjón má leggja á gjald en þá verður gjaldið að fara að öllu leyti til eftirlits, lagfæringar eða uppbyggingar svæðisins.

Í því frumvarpi sem er til umræðu er alls ekki neinar slíkar takmarkanir að finna. Ég er áður búinn að nefna að gjaldtökuheimildin er ekki bundin við náttúruperlur heldur við alla þá ferðamannastaði sem eru skilgreindir sem eitthvað er hafi aðdráttarafl fyrir ferðamenn vegna náttúru og sögu og ekki skilgreint að öðru leyti. Hvað er ferðamannastaður sem hefur aðdráttarafl fyrir ferðamenn vegna náttúru og sögu? Skilgreindur staður í náttúru Íslands þarf ekki að vera neitt annað en, ég meina, Kögunarhóll þess vegna, Ingólfsfjall gæti fallið þarna undir, eitthvað sem allir vita hvað er og einhverjir hafa áhuga á að sjá.

Hér er ekki heldur búið til, eins og í náttúruverndarlögum, lokað kerfi þar sem gjald er lagt á sem verður að nota á stöðunum sjálfum. Nei, nei, hér er lagður á nýr skattur, almennt gjald sem rennur óskipt í ríkissjóð, og velþóknunin drýpur af hverju orði í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem fjallað er um að gjaldið renni að sjálfsögðu allt óskipt í ríkissjóð. Nýr skattur. Og hver er þá kominn hér til að syngja því lof? Einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Jú, það er skattmann sjálfur, hv. þm. Pétur H. Blöndal. Öðruvísi mér áður brá (Gripið fram í.) að hann flytti hér lofræðu um nýja tegund skattlagningar sem er almenn skattlagning, ekki sértæk á nokkurn hátt. Segir í 1. gr. frumvarpsins: „Til að ná þeim markmiðum er í lögum þessum kveðið á um að afla skuli tekna í ríkissjóð með útgáfu náttúrupassa.“ — Sérstakur skattur. — „Um úthlutun þeirra tekna er kveðið á um í lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.“ Með öðrum orðum, það er ekkert fastara í hendi að þessi nýi skattur renni til uppbyggingar ferðamannastaða en það gjald sem nú þegar er lagt á. Ríkisstjórnin hefur í tvígang á fjárlögum skert framlög úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, á þessu ári og í fyrra, frá því sem gert er ráð fyrir í gildandi gjaldtöku. Með öðrum orðum, sú ríkisstjórn sem hefur sýnt af sér að hún hefur í tvígang skert þann skatt sem nú þegar er lagður á til að afla fjár til ferðamannastaða, biður um heimild til að fá að leggja á nýjan skatt sem er miklu, miklu hærri í sama tilgangi. Og hver á að treysta þessari ríkisstjórn til að skila þeim fjármunum til verkefnisins? Hér er um að ræða nýja almenna skattheimtu, algjörlega ótengda þeirri áhættu sem er varðandi skemmdir á afmörkuðum ferðamannastöðum. Það er engin trygging fyrir því að fjármagnið renni til verndar og uppbyggingar á ferðamannastöðunum, gjaldið rennur óskipt í ríkissjóð.

Annar stór ágalli á málinu er sá að með þessu ákvæði er í reynd búin til almenn regla um gjaldtöku af þeim stöðum sem ferðamenn kjósa að heimsækja, óháð því hvort það eru náttúruvætti eða bara einhverjir aðrir staðir. Þar með er algjörlega kippt grunninum undan frjálsri för í víðum skilningi, því að þar með er einkaaðilum sem eiga eitthvað sem ferðamenn kunna að vilja sjá veitt opin heimild til að rukka gjald fyrir aðgang að slíkum svæðum. Ágreiningur hefur staðið um það hvort eigendum við Geysi sé heimilt samkvæmt gildandi lögum að innheimta gjald og lögbann hefur verið sett við slíkri innheimtu. Um þetta er réttarágreiningur. Hér kemur þá ráðherrann og segir: Ja, við ætlum bara einfaldlega að búa til nýja stétt landgreifa, þannig að hinir rukkandi greifar ríkisstjórnarinnar verði meginregla og að menn muni almennt þurfa að greiða fyrir aðgang að því sem þeir vilja sjá. Það þurfa ekki einu sinni að vera náttúruperlur.

Málið kemur fram núna 18 mánuðum eftir að hæstv. ráðherra tók við og sagði þá að það væri forgangsatriði að koma málinu áfram. Segja má að þeim langa meðgöngutíma, sem nálgast meðgöngutíma fíls, hafi ekki verið sérstaklega vel varið, því að út kom afkvæmi sem verður að segjast alveg eins og er, eftir að hafa heyrt umræður um málið í 1. umr., getur ekki talist sérstaklega lífvænlegur krógi. Alla vega er það þannig að hér eru ekki ljósmæður unnvörpum hlaupandi til að grípa krógann og reyna að blása í hann lífi. Maður tekur eftir því að af hálfu stjórnarliða ber frekar á að menn telji þetta ekki lífvænlegt verkefni.

Ég hlýt þess vegna að nefna að það er auðvitað mjög sérstakt að nálgast verkefnið á þeirri forsendu að það sé forgangsverkefni að tryggja fjármögnun vegna átroðslu á ferðamannastöðum, beita síðan valdi sínu, eins og ríkisstjórnin hefur gert með meirihlutavaldi á Alþingi, við tvenn fjárlög til þess að draga úr lögbundnum fjárveitingum til uppbyggingar á ferðamannastöðum tvö ár í röð og koma svo hér, ekki með tillögu um skýrt afmarkaða og eyrnamerkta fjármögnun uppbyggingar á ferðamannastöðum heldur nýjan almennan skatt sem á að renna í ríkissjóð og algjörlega er undir hælinn lagt með hvaða hætti og í hvaða mæli skili sér til uppbyggingar.

Einnig er athyglisvert að vegna seinagangs í málinu er alveg ljóst að þetta kerfi, jafnvel þó að það yrði að veruleika í vor, verður aldrei orðið að fullu tilbúið fyrr en sumarið 2017. Þá verður fyrst hægt að framkvæma það, miðað við þetta kerfi fullfjármagnað miðað við tekjur eins árs, ekki þriggja ára heldur eins árs. Þá blessunarlega stefnir allt í að þjóðin verði búin að hrekja þessa óyndisríkisstjórn af höndum sér, sumarið 2017, þannig að alls óvíst er að þetta kerfi fái nokkru sinni að verða að veruleika fullfjármagnað með þriggja ára fjármögnun. Gjaldið verður fyrst lagt á á haustmánuðum á næsta ári og þar af leiðandi blasir það við að heils árs fjármögnun verður ekki tilbúin fyrr en haustið 2016, sem þýðir að það er fyrst á sumrinu 2017 hægt að framkvæma eitthvað miðað við fjármögnun eins árs uppsafnaða.

Ég ætla samt í lokin að segja að það er auðvitað kostur á málinu hversu mikla fjármuni menn telja að mögulegt sé að sækja með þeim hætti, það gætu orðið 3 milljarðar miðað við óbreyttan fjölda ferðamanna samkvæmt greiningum fjárlagaskrifstofunnar í kostnaðarmatinu. Það eru hins vegar svo margar leiðir til að bregðast við þeim afmarkaða vanda sem við er að glíma. Hinn afmarkaði vandi sem við er að glíma er að sumar náttúruperlur þola ekki átroðning. Það skiptir máli að tryggja uppbyggingu þar og það er eðlilegt að taka einhvers konar gjöld til að tryggja þá varðveislu. Þau geta verið að hluta til með gistináttagjaldi. Það er hægt að útfæra komugjöld líka. Það er líka hægt að útfæra á fjölsóttustu stöðunum bílastæðagjöld þar sem fólk ósköp einfaldlega, með sama hætti og hér hefur verið rætt í dag, stingur krítarkorti í vél þegar komið er að bílastæði og slá opnast. Það er þekkt leið víða um lönd og tryggir auðvitað að þeir sem koma og njóta viðkomandi staðar leggja eitthvað af mörkum fyrir aðstöðuna sem þar er komið upp í formi bílastæða, salernisaðstöðu o.s.frv.

Sambland af þessum leiðum er í mínum huga skynsamlegasta leiðin til að feta okkur áfram. En þessi náttúrupassaleið hefur þann augljósa ókost að búa til nýja landgreifastétt og gera almenna væntingu um það að landið sé lokað en ekki opið. Það er stóri ókosturinn við þetta mál.