144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:16]
Horfa

Áslaug María Friðriksdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég get alls ekki verið sammála því að til séu einfaldari leiðir til að leysa þennan vanda. Ég held að við séum með tiltölulega einfalda leið í höndunum, leið sem er nokkurs konar málamyndaleið. Hún er sveigjanleg. Það er hægt að leggja hana strax á án vandræða. Við mundum fá fjármagn strax inn.

Þær leiðir sem mér finnst hv. þingmaður hafa verið að tala um eru til dæmis gistináttaleiðin og ef maður tekur hana og aðrar leiðir þá kemur það alltaf út þannig að kostnaðurinn á fólkið sem býr á Íslandi margfaldast. Markmið náttúrupassans er einmitt það að reyna að hlífa fjölskyldunum hér og taka kostnaðinn meira og minna frá massanum sem bætist við á ferðamannastöðunum og er helst að heimsækja þá. Það er markmið frumvarpsins.

Ég tel að leiðin sem þar er farin sé ágætlega til þess gerð að ná því markmiði. Ég get engan veginn tekið undir það að gistináttaleiðin eða virðisaukaskattsleiðin séu betri en þær leiðir sem fram koma í frumvarpinu.

Þá finnst mér alveg merkilegt með eftirlitið, ég ætla kannski ekki alveg að tæma það, hægt er að tala um það lengi, en það er eins og menn hafi aldrei heyrt talað um flakkandi stöðugildi. Það er vel hægt að reka stöðugildi sem flakkar um landið með því að hafa marga sem sinna því eina stöðugildi.