144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir ræðuna. Ég hlýddi á hana og reyndi að finna eitthvað jákvætt út úr henni, sá ekki neitt. Það er ekki nógu gott. (Gripið fram í: Þú fékkst allt þetta jákvæða áðan. ) Ég fékk allt það jákvæða áðan, já. Umræðan hefur ekki bara verið neikvæð.

Nú fer þetta mál til hv. nefndar að lokinni umræðu. Ráðherrann sagði að hún gæfi að sjálfsögðu Alþingi og hv. nefnd heimild til að breyta frumvarpinu. Það verður í umfjöllun þingsins.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hv. þingmaður virkilega að íslensk náttúra geti beðið lengur? Getur íslensk náttúra beðið lengur eftir því að menn geri nauðsynlegar ráðstafanir? Ég horfi upp á miklar skemmdir mjög víða. Miklar skemmdir, þá aðallega á mosa og hrauni.

Síðan er það spurningin um leiðir. Hér hafa verið nefndar þrjár leiðir, gistináttagjald, komugjöld eða brottfarargjöld og svo náttúrupassinn. Hv. þingmaður fór ekkert í gegnum þær leiðir. Ég geri ráð fyrir því að hv. nefnd fari í gegnum þær, allar þrjár, taki fyrir kosti og galla. Gallarnir við gistináttagjaldið, ég nefndi það í minni ræðu, er að það hækkar verð á gistingu, sérstaklega ódýrri gistingu. Gallinn við komugjaldið er að það hækkar verð á flugi, sérstaklega ódýru flugi. Síðan er það það sem hv. þingmaður sagði um að Íslendingar mundu borga fyrir að fara um landið sitt. Ég benti á leið í ræðu minni sem hv. þingmaður hefur greinilega ekki hlustað á. Það er að koma með sérstakan persónuafslátt sem Íslendingar gætu notað sjálfvirkt til þess að greiða þetta gjald, en ég sagði jafnframt að mér þætti varla (Forseti hringir.) taka því að fara þá leið.