144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Náttúrupassi er brot á prinsippi um frjálsa för fólks um land sitt án þess að greiða fyrir það sérstakt gjald. Gjaldið eins og það er lagt til í frumvarpinu er sannarlega ekki hátt, það er rétt hjá hv. þingmanni, 500 kr. á ári, en það er brot á prinsippi. Síðan er líka hægt að hækka það gjald, það þekkjum við nú.

Varðandi uppbyggilegar tillögur þá hefur þingmaðurinn ekki hlustað nægilega gætilega á orð mín því ég ræddi til að mynda komugjöld og var þá á sömu nótum og ýmsir stjórnarliðar. Ef ferðamenn eru tilbúnir til þess að borga 1.500 kr. fyrir náttúrupassa þá ættu þeir að vera tilbúnir til þess að borga 1–2 þús. kr. í komugjöld. Það er hægt að hækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu. Það er hægt að hækka gistináttagjaldið og það er hægt að innheimta þjónustugjöld ef byggð hefur verið upp þjónusta sem eðlilegt er að rukka fyrir. Þannig að ég kom með margar tillögur.

Ég hef ekki setið yfir þessum vanda, ég er ekki búin að vera ráðherra ferðaþjónustunnar á annað ár og velta fyrir mér hvernig ég eigi að tækla þetta vandamál í samráði við greinina. Ég ræddi það einmitt að það væri mikilvægt að atvinnuveganefnd aðstoðaði ráðherra sem virðist ekki ráða við það verkefni að finna leiðir sem eru skilvirkar og sanngjarnar og ekki brot á grundvallarprinsippi um frjálsa för fólks án endurgjalds.