144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg reiðubúinn til að skoða allar þær leiðir sem hér hafa verið ræddar nema náttúrupassann. Ég hef reynt fyrir mitt leyti að styðja það mínum rökum. Þau eru að hluta til tilfinningarök, ég dreg enga dul á það. En hæstv. ráðherra má eiga það að hún summar það alveg nákvæmlega upp á hverju andstaða mín byggist.

Það dugar hins vegar ekki fyrir hæstv. ráðherra að koma hingað og tala eins og þetta mál sé ekki óútkljáð. Það er óútkljáð af hennar hálfu. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra viti hvað hún setur fram í eigin nafni, það getur vel verið að einhverjir aðrir hafi skrifað það, en í því svari sem ég las hér áðan lýsir hæstv. ráðherra því yfir að það sé hennar skilningur að eins og staðan er í dag þá sé hægt að krefjast gjalds fyrir aðgang að náttúruperlum í einkaeigu. (Forseti hringir.) Ég dreg það í efa fullkomlega. Hæstv. fjármálaráðherra og leiðtogi lífs hennar treysti sér ekki til að segja það á sínum tíma að það væri í samræmi við lög. Hæstv. ráðherra segir það algerlega skýrt. Nei, einstakir landeigendur geta eftir sem áður í krafti eignarréttar síns rukkað aðgangseyri á sína staði. Ég tel að 4. gr. og síðan sú litla hvatning sem er að finna í frumvarpinu í 4. og 11. gr. til að fá einkaaðilana til samstarfs beinlínis reisi flaggið fyrir þá sem vilja fara leið gjaldtöku á náttúruperlum í einkaeigu. Því er ég algerlega mótfallinn. Ég get hins vegar skilið það sjónarmið þegar menn tala um að það sé kannski orðinn iðnaður þegar menn koma með fleiri og fleiri rútur o.s.frv. En ég segi og það er kannski kjarni máls míns að ég vil eiga kost á því að ganga um land mitt í sátt við náttúruna.