144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:37]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Nú þegar komið er að lokum þessarar umræðu vil ég byrja á því að þakka fyrir hana. Hún hefur verið löng og ítarleg. Það var viðbúið að skoðanaskipti yrðu mikil, um þetta mál eru skiptar skoðanir. Í boði eru fjölmargar leiðir. Þær hafa flestar verið reifaðar hér með einum eða öðrum hætti. Allar hafa þær einhverja kosti, allar hafa þær einhverja galla. Það er akkúrat þess vegna sem við stöndum hér árið 2015 með milljón ferðamenn á ári og það mætti stundum halda að þetta hefði komið okkur mikið á óvart vegna þess að við erum óundirbúin að einhverju leyti. En það er staða málsins og það er viðfangsefnið og það er verkefnið sem við hér verðum að taka höndum saman um að leysa. Ég hef reynt að benda á það í þessari umræðu að við erum öll sammála um markmiðin og það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar að ágreiningurinn snýst ekki um gjaldtöku eða ekki, við erum fyrst og síðast að ræða um þær mismunandi leiðir að markmiðunum og ég ítreka að engin þeirra er gallalaus.

Kvarðinn er stór, hann er eiginlega frá því að við tökum þetta af skattfé, tökum þetta úr ríkissjóði og greiðum úr sameiginlegum sjóðum okkar. Það er vel hægt að rökstyðja það með þeim rökum að hér hefur fjöldi ferðamanna skapað miklar gjaldeyristekjur, miklar tekjur í ríkissjóð, og við eigum að standa undir því með þeim hætti.

Á hinum kvarðanum er kannski sú leið að rukka á hverjum einstökum stað, að hver umsjónaraðili eða landeigandi sjái um sína staði sjálfur, innheimti og taki gjöld. Síðan er allt þarna á milli. Hér hefur verið rætt um gistináttagjöld, þau hafa sína kosti en þau hafa líka sína galla, sem og komugjöld sem líka hafa verið rædd. Ýmis þjónustugjöld eru nefnd og vil ég ítreka að jafnvel þótt leið náttúrupassans yrði niðurstaðan er ekki með honum komið í veg fyrir þann möguleika að opinberir aðilar eða aðrir geti verið með virðisaukandi þjónustu á sínum stöðum, hvort sem það er afþreying, veitingastaðir eða annað. Það er ekki verið að tala um það. Það er verið að tala um þennan aðgangseyri. Með þessu móti taka ríki og sveitarfélög utan um sína staði og segja: Það verður ekki rukkað með öðrum hætti inn á þessa staði og landeigendum er gefinn hvati til að koma með.

Stóri þráðurinn í þessari umræðu, sem mér finnst flestir þingmenn hafa velt upp, er almannarétturinn og aðkoma Íslendinga að þessu viðfangsefni, hvort við Íslendingar eigum að vera sett undir sama hatti og erlendi ferðamaðurinn þegar að þessu kemur. Ég hef sagt það ítrekað í þessari umræðu að ég hef mikinn skilning á því sjónarmiði. Það er til umræðu víða í þinginu. Náttúruverndarlögin hafa verið nefnd og fleiri mál taka á þessu. Um þetta þurfum við að ná um sátt og ég held að það sé hægt að gera það.

Hér hafa ýmsar leiðir verið nefndar. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lagt til að þetta verði gert með persónuafslætti í gegnum skattinn. Það er sjálfsagt að skoða það.

Nú er málið að fara héðan inn til nefndar. Menn hafa gert ráð fyrir að það færi til atvinnuveganefndar og ég hef undir umræðunni verið að velta fyrir mér hvort það sé sá staður sem málið á heima á með tilliti til ýmissa sjónarmiða, til að mynda þeirra að almannarétturinn hefur verið hér mikið til umræðu, einnig vegna þess að frumvarp hæstv. umhverfisráðherra, sem er hér síðar á dagskránni, um landsáætlun um uppbyggingu innviða, fer til umhverfisnefndar. Gæti ekki verið að sú nefnd væri rétti vettvangurinn? Ég nefndi það ekki í fyrri ræðu minni, en ég verð að (Forseti hringir.) viðurkenna að hjá mér togast á þau sjónarmið hvort málið eigi að fara (Forseti hringir.) til atvinnuveganefndar, eins og menn hafa gert ráð fyrir, (Forseti hringir.) eða til umhverfisnefndar. (Forseti hringir.) Ég ætla að fá að taka þau andsvör sem hér eru í boði og leyfa mér að hugsa það þar til þeim andsvörum er lokið.