144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð eiginlega að venda kvæði mínu í kross út frá síðustu orðum hæstv. ráðherra, en hún gaf upp einhvern óljósan bolta um til hvaða nefndar þetta mál ætti að fara. Í mínum huga er það engin spurning. Auðvitað á málið að fara til atvinnuveganefndar. Hvaða enn eina fjallabaksleiðina er hæstv. ráðherrann að fara núna? Hvað liggur hér á bak við?

Ég tók eftir að hæstv. ráðherra var að vitna í 1. gr., markmiðsgreinina, um að vernda náttúru Íslands. Við erum öll sammála um það, það eru allir sammála um að leggja á gjöld. Ef ráðherrann hefur þessa skoðun átti þá ekki umhverfisráðherra að flytja þetta frumvarp? Hvað er þá viðkomandi ráðherra iðnaðarmála að kássast í þessu máli? Það hefði kannski litið öðruvísi út ef umhverfisráðherra hefði flutt málið.

Virðulegi forseti. Ég átti á ýmsu von eftir þessa umræðu en ekki þessu, nei. Ég spyr hvort ekki sé komið nóg af því sem lagt hefur verið til og málið fari til nefndar. Á síðasta kjörtímabili þegar talað var um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða fór málið til iðnaðarnefndar og var unnið þar, sú nefnd er forveri atvinnuveganefndar. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir mælti fyrir málinu í janúar 2009 og iðnaðarnefnd kláraði málið 2011. Hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, flutti skatthlutann og vísaði því til efnahags- og viðskiptanefndar. Af hverju gerði hæstv. ráðherra það þá ekki?

Hér sýnist mér ráðherra vera að leggja til hlut sem er ekki réttur. Samkvæmt þingsköpum er ég alveg sannfærður um það að þetta mál eigi að fara til atvinnuveganefndar, enda hefur ráðherra vísað ferðamálum á þessu kjörtímabili til hennar. Hvað er breytt? Af hverju á að fara þessa fjallabaksleið, (Forseti hringir.) virðulegi forseti?