144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það lýsir betur en nokkuð annað í hvílíkar ógöngur ráðherrann er komin með þetta mál sitt að þegar hún finnur að hún hefur ekki stuðning fyrir því í atvinnuveganefnd, hjá formanni atvinnuveganefndar og flokksbróður sínum, ætlar hún á lokametra umræðunnar að skjóta því til einhverrar annarrar nefndar. Það er óboðlegt að standa þannig að verki en kannski eftir öðru í þessum málatilbúnaði öllum.

Hér er verið að leggja niður gistináttagjaldið og taka upp aðra gjaldtöku í staðinn. Fjármálaráðherra flutti það á fyrra kjörtímabili og það fór í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd á því kjörtímabili. Þá hefði kannski verið rétt að fjármálaráðherra flytti málið, en iðnaðarráðherra tók að sér að flytja það fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og hér hafa allir gengið út frá því að atvinnuveganefnd mundi fjalla um það. Án þess að ég ætli að taka afstöðu til þess hljótum við að kalla eftir því, eins og hér var gert áðan, að hlé verði gert á umræðunni og henni ekki lokið fyrr en það liggur fyrir af hálfu stjórnarmeirihlutans eða Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) hvort Sjálfstæðisflokkurinn telji málið eiga heima í atvinnuveganefnd eða einhverri annarri nefnd þingsins.