144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Í ljósi þess hversu lifandi þetta mál er í meðförum þingsins og í þingsal ætla ég að gera það að tillögu minni eftir að hafa hlustað á hæstv. ráðherra flytja þessa hugleiðslu sína hér og hugleiðingar í stólnum að málið fari til umhverfis- og samgöngunefndar til umfjöllunar þar. Það er ekki slæm hugmynd hjá hæstv. ráðherra. Hún kemur að vísu dálítið seint með hana inn í umræðuna en það er mjög ánægjulegt að sættir skyldu hafa náðst í Sjálfstæðisflokknum um þetta mál eftir þá vandræðalegu uppákomu sem hér varð. Efnislega standa þó alveg rök til þess að þetta mál fari til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd og er ágætt að fá úr því skorið hver vilji þingsins er í atkvæðagreiðslu um þetta mál.