144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þetta var dálítið skrýtið augnablik í þingsögunni, en það kannski undirstrikar að hæstv. iðnaðarráðherra stýrir sínum málaflokki af mikilli festu eins og við urðum öll vitni að hér áðan. Auðvitað vinnast oft glæstir sigrar á undanhaldinu en þetta var nú ekki mjög glæsilegt undanhald hjá hæstv. iðnaðarráðherra. Satt að segja þá man ég ekki eftir því að nokkur hæstv. ráðherra hafi komið hér í ræðustól Alþingis beinlínis til að lýsa vantrausti á formann nefndar sem þar að auki kemur úr hennar eigin flokki. Það var mjög lýsandi fyrir allt þetta mál að það var ekki fyrr en hv. þm. Jón Gunnarsson hafði flutt hér prýðilega og ákaflega málefnalega ræðu, þar sem í ljós kom að hann var ekki sammála hæstv. ráðherra, sem þessi fluga virtist koma í munn hæstv. iðnaðarráðherra. Ég man aldrei eftir því að hæstv. ráðherra hafi komið hér í ræðustól Alþingis og velkst í vafa, verið hálfringlaður yfir því hvert ætti að senda mál af þessu tagi. Það er eiginlega fordæmalaust.

Ég ætlaði nú að koma hér til þess að halda allt aðra ræðu, en það er kannski svolítill antíklímax eftir þetta. Ég vil samt lýsa því yfir að ég tel að þetta mál eigi að fara til atvinnuveganefndar og hef allt aðra skoðun á því en til dæmis hv. þm. Róbert Marshall og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir. Auðvitað má um þetta deila. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að málið sé það flókið og snerti það mörg grundvallaratriði að það eigi bæði að fara til umhverfis- og samgöngunefndar til umsagnar og líka til efnahags- og skattanefndar.

Ég vil þá í lok þessarar umræðu segja að ég held að okkur verði engin skotaskuld úr því að ljúka þessu máli. Ein af meginniðurstöðunum í þessari umræðu var sú að hæstv. ráðherra bókstaflega bað um að menn fyndu lausn á þessari snúnu stöðu sem hún hefur komið málinu í frá upphafi, eins og menn vita. Eiginlega er það ekki hún sem átti þetta mál, það kom fram aftur og aftur í máli hæstv. ráðherra að hún væri ekki að flytja þetta að eigin frumkvæði. Hún sagði það þrisvar sinnum í umræðunni að ríkisstjórnin hefði falið henni að koma þessu máli á framfæri, eins og henni væri alveg sama um afdrif þess. Ég held að við eigum bara að taka hana á orðinu.

Ég tel að það hafi komið fram alveg ljóslega í þessari umræðu að menn eru sammála um meginprinsipp og meginprinsippið er það að við ætlum að finna leið til að skapa tekjur til að standa undir uppbyggingu á ferðamannastöðum. Það var líka alveg hárrétt hjá hæstv. iðnaðarráðherra þegar hún dró saman umræðuna hér áðan, þegar hún sagði að langflestir þeirra sem hefðu tekið til máls og andmælt frumvarpinu hefðu gert það á grundvelli almannaréttar. Það er þess vegna sem ég er fullkomlega sammála hv. þm. Jóni Gunnarssyni, sem fór vel yfir þetta og sagði: Reynum þá að finna einhvers konar leið sem sameinar þetta tvennt, þ.e. að ekki verði skerðing á almannaréttinum en skapaðar verði tekjur til að byggja upp ferðamannastaðina. Og það er ekki síst út af þessari ræðu sem hv. þingmaður flutti hér áðan sem ég er algjörlega harður á því að málinu er best komið þar. Þær hugmyndir sem hann reifaði hér voru ekki ósvipaðar hugmyndum sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon reifaði varðandi komugjöld. Það var nýmæli fyrir mér, sú tillaga sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutti hér í dag um að beita þeim á þann tíma þegar, eins og hv. þingmaður orðaði það, Ísland er uppselt, þegar kúfurinn er, mælti hv. formaður atvinnuveganefndar.

Sömuleiðis fannst mér hv. þm. Jón Gunnarsson koma með alveg nýjan flöt inn í umræðuna sem við höfum ekki heyrt fært inn á það hlaðborð hugmynda sem hér hefur verið búið til í dag, og það var það sem hann kallaði, með leyfi forseta, City Tax eða borgarskatt, og sú hugmynd sem hann útfærði hér, hugsandi hugsanlega upphátt, um það hvernig það gæti þættast inn í sveitarfélögin og orðið til þess að lyfta ferðaþjónustunni og gera þau meðvituð um það, hugnaðist mér. Og ég heyrði ekki betur en hann væri að tala mjög nálægt því sem hv. þm. Líneik Sævarsdóttir ræddi hér í gær. Svo að hvað sem þessu líður þá er komin niðurstaða og það getur vel verið að hæstv. ráðherra fari heim ekki jafnglöð og hún gekk til umræðunnar, en eftir liggur að við erum sammála um hvert þetta mál á að fara og ég held að við séum að verða sammála um ákveðna meginþætti.