144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

fjárfestingarsamningur við Thorsil ehf. um kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ.

420. mál
[19:24]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við Thorsil ehf. um kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ á þskj. 628. Ég vil rétt í upphafi taka af allan vafa með það að ég legg til að lokinni þessari umræðu að málinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar.

Í því frumvarpi sem hér um ræðir er lagt til að iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands verði veitt heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við félagið Thorsil ehf. vegna byggingar og reksturs kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ. Fjárfestingarsamningur vegna þessa verkefnis var undirritaður þann 30. maí á síðasta ári og er hann birtur sem fylgiskjal með frumvarpinu og miðað er við að hann öðlist lagagildi nái frumvarpið að óbreyttu fram að ganga.

Fjárfestingarsamningurinn sem um ræðir er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka nýfjárfestingu á Íslandi, með áherslu á verkefni sem hafa jákvæð efnahagsleg áhrif í framtíðinni og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi. Þá hefur ríkisstjórnin einsett sér að styðja við stofnun nýrra útflutningsgreina á Íslandi sem hafa jákvæð heildaráhrif á samfélag og efnahag. Thorsil ehf. áætlar að reisa og reka kísilmálmverksmiðju til framleiðslu á allt að 54 þús. tonnum af kísilmálmi á ári. Raforkuþörf til framleiðslunnar er um 87 megavött á klukkustund eða um 730 gígavattstundir á ári. Í verksmiðjunni verða tveir bræðsluofnar og hvor þeirra mun þurfa um 40 megavött á klukkustund. Auk framleiðslu á kísilmálmi er ráðgert að framleiða um 26 þús. tonn af kísildufti og rúmlega 5 þús. tonn af gjalli á ári en þessar afurðir falla til við framleiðslu á málminum. Ráðgert er að bygging kísilmálmverksmiðjunnar hefjist í apríl 2015 með fyrirvara um samþykki Alþingis. Áætlað er að fyrri ofninn verði tekinn í notkun í apríl 2017. Gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting félagsins nemi um 28 milljörðum íslenskra króna eða sem samsvarar 252 milljónum bandaríkjadala og verður eigið fé á móti lánsfé um 31%. Áætlað er að um 350 starfsmenn komi að uppbyggingu verksmiðjunnar og 130 manns starfi við hana þegar rekstur hefst, þar af um 30 manns við stjórnunar- og tæknistörf.

Að undanskildum þeim sértæku frávikum sem fram koma í fjárfestingarsamningnum er gengið út frá því að starfsemi félagsins skuli að öðru leyti vera í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Þær ívilnanir sem fram koma í fjárfestingarsamningnum felast í eftirfarandi frávikum á sköttum og gjöldum:

1. Tekjuskattshlutfall félagsins verður 15% í stað 20%.

2. Almennt tryggingagjald verður 50% lægra en kveðið er á um í lögum um tryggingagjald.

3. Hlutfall fasteignaskatts verður 50% lægri en lögbundið hámark að viðbættu álagi, samanber lög nr. 4/1995.

4. Gatnagerðargjald verður 30% lægra en samkvæmt gjaldskrá Reykjaneshafnar.

5. Sérreglur gilda varðandi fyrningu eigna.

6. Félagið verður undanþegið íslenskum aðflutningsgjöldum af efnum til reksturs verksmiðjunnar.

7. Ýmis öryggisákvæði eru varðandi upptöku nýrra skatta.

8. Veittar eru ívilnanir vegna aðflutningsgjalda samkvæmt 6. gr. samningsins og jafnframt er félaginu veittur frestur til greiðslu á virðisaukaskatti af innflutningi.

Framangreindar ívilnanir sæta takmörkunum en samkvæmt fjárfestingarsamningnum skulu þær samtals aldrei verða meiri en sem nemur 769,4 milljónum íslenskra króna, að núvirði. Fjárfestingarsamningurinn gildir í 13 ár frá því að ráðherra staðfestir fjárfestingarsamninginn en þó með þeirri undantekningu að umræddar ívilnanir gilda að hámarki í 10 ár frá því að til viðkomandi gjaldskyldu eða skattskyldu er stofnað af hálfu félagsins, en þó aldrei lengur en í þau 13 ár sem fjárfestingarsamningurinn er í gildi. Nái fjárfestingarverkefnið Thorsil ehf. fram að ganga eru áætluð samfélags- og efnahagsleg áhrif þess mjög jákvæð. Samdráttur í framleiðslu hefur verið einna mestur á Suðurnesjunum í kjölfar bankahrunsins, atvinnuleysið er hvergi meira og mannaflinn að jafnaði ekki eins vel menntaður og gengur og gerist í öðrum landshlutum. Þetta ástand kallar á raunverulegar aðgerðir til atvinnuuppbyggingar og er það mat stjórnvalda að nýfjárfestingarverkefnið Thorsil ehf. sé dæmi um iðnaðaruppbyggingu sem nýtist svæðinu mjög vel og sé mikilvægur liður í tengslum við úrlausn þeirra viðfangsefna sem svæðið glímir við. Þá er ávinningurinn af verkefninu umtalsverður fyrir þjóðarbúið og atvinnustigið í landinu.

Enn fremur hefur reynslan af rekstri sambærilegra iðjuvera á Íslandi sýnt að þau eru uppspretta mikilvægrar nýsköpunar. Við gerð frumvarps þess sem hér um ræðir var haft samráð við Thorsil ehf., fjármála- og efnahagsráðuneytið, fjárfestingarsvið Íslandsstofu, Reykjanesbæ og Reykjaneshöfn.

Herra forseti. Erfitt er að fjalla um mál er varða ríkisstyrki án þess að nefna Eftirlitsstofnun EFTA, enda ber að skilgreina þær ívilnanir sem um ræðir sem ríkisaðstoð í samræmi við 61. gr. EES-samningsins. Síðastliðið sumar tók gildi á EES-svæðinu reglugerð (ESB) um almenna hópundanþágu, svokallaða GBER. Í þeirri reglugerð er kveðið á um að ef til staðar eru heimildir í landslögum geta stjórnvöld, að uppfylltum þeim skilyrðum, veitt fyrirtækjum tiltekna ríkisaðstoð sem telst þá vera samrýmanleg ríkisaðstoðarreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og undanþegin tilkynningarskyldu til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem hefur með höndum samræmingar- og leiðbeiningarhlutverk gagnvart öðrum stjórnvöldum vegna ríkisaðstoðarmála, metið það sem svo að umrædd ríkisaðstoð til Thorsil ehf. falli undir skilyrði reglugerðarinnar. Með hliðsjón af framangreindu verður ríkisaðstoðin sem hér um ræðir því ekki tilkynnt ESA sérstaklega en þess má þó geta að ESA hefur verið upplýst um verkefnið.

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka að að þessu sögðu leyfi ég mér að leggja til að þessu frumvarpi verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.