144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

fjárfestingarsamningur við Thorsil ehf. um kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ.

420. mál
[19:37]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð nú að segja að þetta kemur úr hörðustu átt. Ég held að ég þekki engan hv. þingmann sem á jafngóða spretti í því sem fellur ekki undir sparnað í orðavali. En ég er sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt að koma hlutum af stað í Helguvík. Það er rétt að álverið er ekki farið af stað og eins og ég sagði eru það mér vonbrigði. En við getum fagnað því að áður en langt um líður munum við sjá framkvæmdir við það verkefni fara af stað og fylgst með uppbyggingu annars kísilvers sem framkvæmdir eru þegar hafnar við. Ég mundi svo sannarlega aldrei kalla hv. þingmann áhrifalausan hér í þinginu, hv. þingmaður veit að það er talsvert lítillæti af hans hálfu að halda því fram, en það er gott að vita af stuðningi hans við þetta mál og í sameiningu munum við beita áhrifum okkar til þess að málið verði afgreitt hér hratt og örugglega.