144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

leiga skráningarskyldra ökutækja.

421. mál
[19:58]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um leigu skráningarskyldra ökutækja á þskj. 629, í 421. máli.

Frumvarpið, heildarlög um leigu skráningarskyldra ökutækja, er samið af starfshópi sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði í ágúst 2013. Á síðasta löggjafarþingi var lagt fram frumvarp með sama heiti en það náði ekki fram að ganga. Það frumvarp sem hér er lagt fram hefur verið endurbætt frá fyrra frumvarpi. Meðal annars má nefna að tekið hefur verið mið af tillögum úr skýrslu um einföldun starfsumhverfis og regluverks í ferðaþjónustu en sú nefnd skilaði af sér í júní á síðasta ári.

Ekki þarf að fjölyrða um það að ferðamönnum sem sækja Ísland heim hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Samhliða hefur aðilum sem bjóða upp á leigu ökutækja fjölgað verulega ásamt því að ökutækjaleiga er nú fjölbreyttari en áður. Þá er einnig orðið algengara en áður að leigð séu út ýmis önnur skráningarskyld ökutæki án ökumanns svo sem fjórhjól, vélsleðar og slík tæki. Breytingarnar sem frumvarpið boðar stefna að því að styrkja lagarammann um starfsemi ökutækjaleiga, einfalda regluverkið en á sama tíma bæta eftirlit með starfseminni. Þá felast í frumvarpinu skýrari ákvæði um réttindi og skyldur bæði leigusala og leigutaka, sérstaklega með tilliti til öryggis leigutaka og vegfarenda almennt.

Helstu nýmæli frumvarpsins eru eftirfarandi:

Frumvarpið tekur til allra skráningarskyldra ökutækja en reglugerð sett á grundvelli núgildandi laga um bílaleigur tiltekur sérstaklega að ekki þurfi leyfi til þess að leigja út skráningarskyld ökutæki önnur en bifreiðar. Skráningarskyld ökutæki eru bifreiðar, bifhjól, torfærutæki, dráttarvélar, eftirvagnar bifreiða eða dráttarvélar, sem gerðar eru fyrir meira en 750 kílóa heildarþyngd, svo og hjólhýsi og tjaldvagnar. Útgefin leyfi verða ótímabundin en samkvæmt núgildandi lögum gilda leyfi til fimm ára í senn. Að sama skapi eru eftirlitsheimildir Samgöngustofu og úrræði hennar efld. Nauðsynlegt þótti að bæta eftirlitsheimildir Samgöngustofu og úrræði stofnunarinnar þegar ekki er farið að lögum. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að Samgöngustofa geti gert vettvangskannanir og krafið leyfishafa um ýmsar upplýsingar.

Þá verður Samgöngustofu einnig heimilt að fella niður starfsleyfi ef leyfishafi uppfyllir ekki skilyrði laganna eða brýtur gegn ákvæðum þeirra. Enn fremur mun Samgöngustofa hafa heimild til þess að leggja dagsektir á hvern þann sem brýtur gegn tilteknum ákvæðum frumvarpsins og lætur undir höfuð leggjast að bæta úr brotum sínum ásamt því að geta lagt á stjórnvaldssektir starfi ökutækjaleiga án leyfis.

Í þriðja lagi eru auknar kröfur gerðar varðandi gögn sem leggja þarf fram til að öðlast starfsleyfi og töluvert aukið við skyldur leyfishafa. Er þar um að ræða kröfur um rétta skráningu á ökutækjum hjá Samgöngustofu, skyldu til þess að leyfishafi sé skráður eigandi ökutækis sem á að leigja út og sérstaklega tiltekið að ökutæki sem leigja á út þurfi að hafa lögbundna aðalskoðun og hafa gilda ábyrgðartryggingu samkvæmt umferðarlögum.

Nýmæli er í frumvarpinu um svokallaðar einkaleigur en það eru lögaðilar sem sérhæfa sig í að hafa milligöngu um útleigu á skráningarskyldum ökutækjum í eigu einstaklinga. Slíkum aðilum er gert að sækja um leyfi samkvæmt lögunum og að uppfylla hluta af þeim kröfum sem gerðar eru til hefðbundinna ökutækjaleigna.

Samkvæmt frumvarpinu taka lögin þegar gildi en koma til framkvæmda þann 1. maí 2015. Gild starfsleyfi munu halda gildi sínu en núverandi leyfishöfum er gert að tilkynna Samgöngustofu að þeir hyggist halda áfram starfsemi sinni í nýju lagaumhverfi. Þá verður Samgöngustofu heimilt að kalla eftir viðbótargögnum frá leyfishöfum og eins heimilt að beita ákvæðum um eftirlit og sektir gagnvart núverandi leyfishöfum.

Í stuttu máli er því markmið frumvarpsins að gera lagaumhverfi ökutækjaleigna skýrara auk þess sem um verulega einföldun á regluverki er að ræða. Er hér sem áður segir tekið mið af skýrslu starfshóps um einföldun regluverks í ferðaþjónustu og reynt að koma upp kerfi sem bæði tryggir skilvirkt og einfalt leyfisveitingaferli en líka öflugt og sterkt eftirlit með starfseminni svo tryggja megi öryggi leigutaka og almennings.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar, en þess má geta í ljósi þeirrar umræðu sem varð hér áðan um nefndarfærslu á náttúrupassafrumvarpinu að hér er komið annað dæmi sem hægt væri að beina til hv. forsætisnefndar þar sem þetta frumvarp fellur bæði að atvinnuveganefnd, sem fær málið að minni tillögu, og að umhverfis- og samgöngunefnd þar sem þetta er jú sannarlega samgöngumál. Það er því kannski ekki úr vegi að fara að tillögu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur og fara yfir forræðismál nefndanna og taka til skoðunar þannig að við getum sem skýrast og sem best beint þeim málum í réttan farveg hér innan þingsins.