144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

uppbygging innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

427. mál
[20:17]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur kærlega fyrir fyrirspurnina. Ef við skoðum 5. gr. frumvarpsins kemur nánari skýring á til hverra verður leitað, en mér finnst alveg augljóst eins og getið er um að rætt verður við náttúruverndarsamtök og ýmsa aðila og haft við þau samráð. Það er dálítið víðfeðmt þegar getið er um náttúruverndarsamtök og ég veit ekki hvort þau koma sér saman um það að fulltrúi þeirra komi frekar frá Vatnajökulsþjóðgarði eða frá Þingvöllum. Mér fyndist mjög eðlilegt að það verði gert, ég trúi og treysti á slík samtök, að þau komi sér saman um það.

Varðandi friðlýstu svæðin og Umhverfisstofnun, auðvitað verður unnið mjög náið með þeim aðilum. Þetta er mikið verk og ég nefni þetta bráðabirgðaákvæði sem ég gat um, að reynt verði að koma með fyrstu hugmyndina að framkvæmdaáætlun eftir sex mánuði frá samþykkt frumvarpsins. Það er náttúrlega mjög skammur tími, þannig að við munum ekki geta gert allt. Eðli málsins samkvæmt verði leitað til Náttúrufræðistofnunar og að öll sú vitneskja sem liggur fyrir hjá þessum ágætu stofnunum, hvort sem það er Umhverfisstofnun eða Náttúrufræðistofnun, verði leiðarljós inn í starfið.