144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

uppbygging innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

427. mál
[20:47]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ágætar umræður þó að ekki hafi margir tekið til máls, og þær voru markvissar og góðar þær ábendingar og fyrirspurnir sem komu héðan.

Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir lýsti áhyggjum af nokkrum þáttum og fór meðal annars yfir samspilið við þjóðgarðana sem eru ólíkrar gerðar, sem og Umhverfisstofnunar. Ég tel það bara af hinu góða að ekki séu allir með nákvæmlega sama svipmótið og hef hingað til talið að þegar maður leiddi slíkar stofnanir eða fólk saman þá væri þar meiri gerjun í gangi heldur en ef þetta væri ein risastofnun. Ég treysti á það.

Ég hef farið í heimsókn til Umhverfisstofnunar og fékk ágætan fyrirlestur, þótt hann væri náttúrlega ekki ítarlegur og frekar stuttur, um þá flokkun sem þingmaðurinn gat um, en ég er nokkuð meðvituð. Ég bið menn að skoða í hvaða tilgangi frumvarp þetta er sett fram og það hefði þurft að vera búið að flytja það fyrir löngu ef vel hefði átt að vera. Við erum nokkuð gripin í bólinu með það að skoða hvaða staði við viljum gera betur við, hvernig við viljum byggja þá upp, hvaða nýja staði við getum fundið til að dreifa álaginu á okkar ágæta land o.s.frv. Núna er frumvarpið komið fram og ég er nokkuð stolt og ánægð með að það skuli hafa verið mín fyrsta framsaga. Það er þó nýsmíði, íslensk smíði, sem við erum að reyna að koma saman, en ekki sem tilskipun sem kemur einhvers staðar frá. Með það er ég ánægð. Ég er ekki að segja að það sé fullkomið frekar en önnur mannanna verk og má vissulega eitthvað bæta um betur. Til þess er nú það samráð sem báðir þingmennirnir sem hér kvöddu sér hljóðs töluðu um. Ég er manna fyrst til að vilja hafa samráð og ræða hlutina en það þýðir ekki bara að ræða hluti, það þarf líka að framkvæma.

Það er meginmarkmiðið hér, að kortleggja með friðuninni og umgengninni á stöðunum að leiðarljósi sem og menningarverðmætunum sem hefur kannski ekki eins mikið verið farið inn á. Þegar ég tala um menningarminjar og menningarverðmæti er mér nú hugsað til þjóðgarðsins á Þingvöllum sem við öll sitjum nú í sem hér höfum farið í pontu, en er með nokkuð sérstökum hætti og er ekki síður gerður að þjóðgarði út af menningunni en náttúrunni. Má kannski segja að náttúran í þjóðgarðinum hafi frekar vaxið í umræðunni með árunum en upphaflega var hann fyrst og fremst búinn til með hliðsjón af menningu okkar og menningarminjum sem þar eru, svo því sé til skila haldið.

Það er líka rétt að ráðuneytið sem ég stýri um þessar mundir heitir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Við erum þar með mikla auðlind þegar við höfum náttúruna undir, ekki bara náttúru landsins, það er víðtækara en svo. Ég hef sagt það áður að ég finn svo sem alveg til þeirrar ábyrgðar en núna erum við að hefja kortlagningu ferðamannastaða.

Spurt var um kostnaðarmatið. Þá ætla ég að vitna í umsögn frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem kemur fram á lokasíðu frumvarpsins:

„… telur fjármála- og efnahagsráðuneytið að það verði afar gagnlegt fyrir áætlanagerð um ríkisfjármálin að fram komi stefnumörkun um innviðaverkefni í þágu ferðaþjónustu og að til verði langtímaáætlun um helstu verkefni, æskilega forgangsröðun þeirra, fjárþörf og kostnaðargreiningar.“

Það stendur beinlínis hér þó að ekki sé búið að kortleggja nákvæmlega fjármagnið. En ef náttúrupassi eða annað í líkingu við hann nær hér fram að ganga á Alþingi þá kemur náttúrlega fjármagn inn til að byggja upp þessi svæði.

Varðandi 8. gr. og landeigendur er þess getið að ekki verði rukkað sérstaklega inn á svæði nema ef þar er veitt þjónusta. Maður getur ímyndað sér veitta þjónustu ef landeigandi tekur sig til og leggur göngustíga, byggir upp salerni, er með kaffisölu o.s.frv., þá er honum náttúrlega heimilt og eðlilegt að hann geti rukkað fyrir það. Mér finnst það ekki óeðlilegt. En allt verður þetta til skoðunar.

Mér finnst nú samt á umræðunni að við getum náð saman um þetta mál. Talandi um þetta samspil sem hefur verið svolítið lykilorð í ræðum hérna, þá finnst mér þetta vera réttur tímapunktur, þetta fellur saman, við erum að skoða náttúruverndarlögin. Þar er almannarétturinn mjög ríkur eða mikið til umfjöllunar, við vitum að það er hér á vorþinginu og í umhverfis- og samgöngunefnd sem þetta frumvarp fer einnig til að lokinni 1. umr. Og síðan er á sama tíma verið að fjalla um gjaldtöku, náttúrupassann, þannig að ég sé ekki annað en hér sé mjög spennandi samspil ef við getum tengt allt þetta þrennt saman.

Ég þakka fyrir umræðuna og lýsi tilhlökkun að sjá hvernig nefndin fjallar um frumvarpið.