144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

stjórn vatnamála.

511. mál
[21:11]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég deili auðvitað með henni þeirri von að það dugi fyrir þá miklu hagsmunaaðila sem eiga væntanlega eftir að skila umsögnum sínum við meðferð málsins í nefnd.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því er varðar þær áhyggjur sumra þeirra hagsmunaaðila sem hér koma fram, að þeir óttist að gjaldið sem innheimt er renni ekki óskipt til þeirra verkefna sem undir eru, sem er nú reyndar nokkurt þrástef hjá hagsmunaaðilum. Telja sumir að ekki sé tryggt að gjaldið nýtist í þágu vatnsverndar eins og lagt er upp með. Þeir telja að það séu áformin til að byrja með en síðar verði hér um að ræða raunverulega skattheimtu sem verði nýtt til annarra verkefna hjá ríkissjóði.

Síðan vil ég spyrja: Að hve miklu leyti mæta sveitarfélögin þessum kostnaðarauka hreinlega með hækkunum á gjaldskrám sínum sem hafa þá beinlínis áhrif á alla notendur? Það eru þá náttúrlega óbeinar skattahækkanir á almenning ef svo er.

Svo vil ég líka spyrja í lokin: Er þessi leið við gjaldtöku sambærileg við það sem almennt gerist á Evrópska efnahagssvæðinu?