144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

húsaleigubætur.

237. mál
[21:36]
Horfa

Flm. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum hér um mál á þskj. 266, um breytingu á lögum um húsaleigubætur. Lögin eru nr. 138/1997, með síðari breytingum, og varða námsmenn.

Ég lagði fram sambærilegt frumvarp og hér liggur fyrir á 143. löggjafarþingi. Það gekk til velferðarnefndar sem sendi út umsagnarbeiðnir vegna þess síðla árs 2013. Fimm umsagnir bárust, meðal annars frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem taldi frumvarpið ekki tímabært, þar sem breytingar á borð við þær sem þar voru lagðar til ættu að eiga sér stað samfara almennum aðgerðum í húsnæðismálum. Aðrar umsagnir um breytinguna sem lögð var til voru jákvæðar.

Í ljósi þess að við blasir að núverandi skipulag felur í sér ójafnræði er málið lagt fyrir þingið að nýju lítillega breytt á þann veg að viðmiðun um fastákvarðaða vegalengd milli skólastaðar og heimilis er felld brott en aðrar kringumstæður, sem gera nemanda skólasókn erfiða, látnar ráða.

Með mér á þessu máli eru hv. þingmenn Brynhildur Pétursdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Valgerður Gunnarsdóttir.

Frumvarpið er í tveimur greinum og er þar lagt til að við 2. mgr. 4. gr. laganna bætist tveir nýir málsliðir sem eru svohljóðandi:

„Námsmenn í reglulegu námi á framhalds- og háskólastigi sem vegna náms síns leigja íbúðarhúsnæði í sama sveitarfélagi og þeir eiga lögheimili í geta, þrátt fyrir 1. mgr., átt rétt á húsaleigubótum.“

Heimildin er sem sagt til þess að greiða húsaleigubætur til námsmanns ef samgöngur til og frá skóla eru honum sérstaklega erfiðar, meðal annars með tilliti til veðráttu og ástands vega eða vegna skorts á almenningssamgöngum.

Virðulegi forseti. Í lögum um húsaleigubætur kemur fram að meginreglan til þess að eiga rétt á slíkum bótum er að leigjandi eigi lögheimili í leiguhúsnæðinu. Undanþáguákvæðið kveður á um að nemi sem þarf að leigja sér íbúðarhúsnæði vegna náms síns eigi því aðeins rétt á húsaleigubótum að hið leigða húsnæði sé í öðru sveitarfélagi en lögheimili nemandans. Það er rétt að láta það koma fram hér að til dæmis er ekki hægt að eiga lögheimili á heimavist skóla.

Þegar farið var af stað í sameiningar sveitarfélaga voru sveitarfélögin mun fleiri en þau eru í dag og sum hver lítil að flatarmáli. Þá skipti þetta kannski ekki máli, en á þeim landsvæðum þar sem sveitarfélög hafa sameinast og orðið stór og víðfeðm blasir við að þeir námsmenn sem þar búa geta staðið frammi fyrir því að njóta ekki húsaleigubóta þrátt fyrir að langt sé frá lögheimili þeirra á skólastað og þeir nauðbeygðir til að flytja þaðan og búa nærri skólanum sínum á meðan á námi stendur. Þetta á einungis við, þessi breyting, ef skólinn er í sama sveitarfélagi og lögheimili nemandans er. Það gildir einu þótt vegalengdin þar á milli sé mun meiri en svo að raunhæft sé að ekið sé á milli þessara staða á hverjum degi, jafnvel um torfarinn veg, ég tala ekki um að vetrarlagi. Við munum öll hvernig var hér í fyrra, til dæmis fyrir austan, þegar það var ófært svo dögum skipti eða illfært.

Einnig er vert að halda því til haga að yngstu nemendurnir sem stunda framhaldsskólanám hafa ekki ökuréttindi aldurs síns vegna, fyrir utan að skólanemar eða aðstandendur þeirra hafa ekki endilega ráð á bifreiðum eða fjárhagslegt bolmagn til að koma börnum sínum á milli skóla og heimilis alla daga.

Það er því svo að núverandi skipulag húsaleigubóta verður þess valdandi að framhaldsskólanemum sem búa langt frá skóla, jafnvel í margra tuga kílómetra fjarlægð, er synjað um húsaleigubætur af því og einungis á þeirri forsendu að skóli og lögheimili séu innan sama sveitarfélags. En svo erum við með umsóknir nemenda úr nágrannasveitarfélagi við skólann sem býr í sjálfu sér tiltölulega skammt frá skólastað, hann fær samþykktar húsaleigubætur af því að hann býr ekki innan sveitarfélagsins.

Það kom til ráðherra mál þar sem foreldrar, fyrir hönd barns síns, höfðu látið reyna á slíka greiðslu gagnvart sveitarfélaginu en fengu synjun á slíkri lögheimilisforsendu, þ.e. að barnið þeirra var ekki með lögheimili í húsnæðinu sem leigt var vegna námsins. Á þeirri forsendu hafnar sveitarfélagið, af því að því ber ekki skylda til þess samkvæmt núgildandi lögum. Úrskurðarnefnd um félagsþjónustu og húsnæðismál staðfesti þessa synjun og foreldrarnir töldu að þetta væri brot á jafnræðisreglu. Ég tek undir það heils hugar og tel að við eigum að beita okkur fyrir leiðréttingu á þessu misrétti með því að samþykkja þá breytingu sem hér er lögð fram á lögunum. Það er sem sagt þannig að nemandi þarf að hafa aðsetursskipti til að eiga rétt á húsaleigubótum, en svo er það ekki heimilt innan lögheimilissveitarfélags.

Þessari lagabreytingu er stefnt gegn þessu óréttláta fyrirkomulagi og viðmið fyrir greiðsluheimild sveitarfélags til nema eru sótt í 4. gr. reglugerðar nr. 692/2003 um námsstyrki, enda er líku saman að jafna þar sem námsstyrkjum og áformuðum húsaleigubótum til skólanema er ætlað að styðja námsmenn í dreifbýli sem þurfa að sækja skóla um langan veg.

Ég hef ekki neinar tölur um fjölda þeirra nemenda sem gætu átt rétt á húsaleigubótum ef þetta næði fram að ganga. Þeir eru kannski ekki mjög margir, þetta eru víðlendustu og strjálbýlustu sveitarfélögin. Þau eru þó ansi mörg, t.d. Borgarbyggð og Ísafjarðarbær, þar undir eru Þingeyri, Suðureyri og Flateyri, Vesturbyggð, Strandabyggð, sveitarfélagið Skagafjörður, Húnaþing vestra og Akureyri, þar undir eru Hrísey og Grímsey, Þingeyjarsveit, meðal annars Laugaskóli og Norðurþing, þar er Raufarhöfn og Kópasker, Langanesbyggð, Fljótsdalshérað, Fjarðabyggð og sveitarfélagið Hornafjörður. Það eru því mörg sveitarfélög sem eru orðin svona stór og víðfeðm þó að nemendur séu ekki endilega mjög margir. Þetta á kannski ekki við alls staðar en vissulega mundu einhverjir fegnir þiggja þennan stuðning.

Virðulegi forseti. Nemandi sem býr í Grímsey velur hvort hann eigi að leggja stund á nám við framhaldsskóla á Akureyri eða í Ólafsfirði. Það er í sjálfu sér styttra að fara til Ólafsfjarðar og þá er viðkomandi nemandi ekki lengur í lögheimilissveitarfélagi og gæti fengið húsaleigubætur. En ef hann fer til Akureyrar, þangað sem er lengra að fara og augljóst að viðkomandi nemandi fer ekki heim daglega með ferju, ef hann velur að búa í heimavistinni á Akureyri, þá á hann ekki rétt á húsaleigubótum. Hann gæti svo átt herbergisfélaga sem býr í 13 km fjarlægð inni á Svalbarðsströnd eða á Svalbarðseyri, sá á rétt á húsaleigubótum þó að hann sé bara tíu mínútur að keyra heim, af því að hann er ekki í sama sveitarfélagi. Ég held að það sjái allir að mikið óréttlæti er í þessu.

Ég tók dæmi hér síðast og geri aftur af nemenda sem býr á Fljótsdalshéraði, af því að þaðan er þessi hugmynd sprottin, vegna kvörtunar sem foreldrar lögðu fram. Þar getur vegalengdin numið allt að 100 km. Ég held að við mundum ekki sjálf vilja búa við það eða börn okkar að þurfa að keyra svo langt daglega fyrir utan það að stundum er það hreinlega ekki hægt.

Almenningssamgöngur eru afskaplega mismunandi í hinum dreifðu byggðum landsins. Eingöngu út frá því sjónarmiði, ef við mundum horfa á það frá þeirri hliðinni, er í sjálfu sér alveg ómögulegt að gera ráð fyrir því og ætlast til þess að nemendur geti komið sér milli heimilis og skóla með góðu móti alla daga. Það er ekki síður mikilvægur þáttur í þessu sambandi, þegar við erum að tala um að nemendur eigi langt að heiman til skóla, að ef þeir keyra alltaf heim seinni part dags, eða nota almenningssamgöngur þar sem því verður við komið, þá eru þeir kannski að missa af öllu félagslífi. Það er jú stór hluti af því að vera í framhaldsskóla að taka þátt í slíku félagslífi. Þess vegna er þetta margþætt óréttlæti og ójafnræði sem við þurfum að lagfæra.

Síðan er það fjárhagslegi kostnaðurinn. Ekki er hægt að rökstyðja að nemandi sem býr í sveitarfélaginu en þarf að fara um langan veg hafi hærri tekjur eða minni tilkostnað af veru sinni í skóla en þeir hinir sömu sem eiga rétt á því að fá húsaleigubætur. Ef við því styðjum jafnrétti til náms og viljum að það sé raunverulegt þá þurfum við að breyta þessu.

Það er vitað að einhver sveitarfélög styðja við sína nemendur með einhverri niðurgreiðslu. En það á ekki að vera — hvað á ég að segja — í höndum sveitarstjórnar hverju sinni, að hún hafi geðþóttaákvörðunarvald um það hvort hún ákveður að styðja við sína nemendur eða ekki. Það kallar á mismunun og það er enn einn vinkillinn á því að við styðjum þetta mál til að skapa jafnrétti til náms og búsetu, af því að við viljum jú öll, held ég, að byggð sé í öllu landinu og líka í hinum dreifðu byggðum.

Í skýrslu, sem var birt í lok maí 2012, vinnuhóps um húsnæðisbætur var gerð tillaga sem miðaði að því að tryggja öllum sama rétt til fjárhagsstuðnings vegna húsnæðiskostnaðar óháð búsetu. Það hefur mikið verið rætt hér í þinginu. Núverandi ráðherra félags- og húsnæðismála hefur haft það á stefnuskrá sinni að bæta stöðu þeirra sem eru á leigumarkaði og sérstaklega hefur hún rætt um ungt fólk og sagt að verið sé að vinna að framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Ég trúi því að hún styðji við þetta, þó að hér sé það tekið út úr heildarendurskoðuninni. Sú heildarendurskoðun gengur hægar fyrir sig og það er margt þar undir sem getur orðið til að hægja á málinu. Það er viðbúið að einhverjir hlutir þar verði umdeildir og það gæti orðið til þess að svona réttlætismál, eins og ég er hér að leggja til, og við sem að þessu stöndum, nær ekki fram að ganga. Þess vegna ákvað ég að taka einungis þennan eina þátt út úr í þeirri von að þingið samþykki þetta, af því að þetta er mikil réttarbót og mikið jafnræðismál.

Virðulegi forseti. Ég vona að málið týnist ekki í nefnd og komist ekki þaðan út aftur, það vilja oft verða örlög þingmannamála. Ég hef sannfæringu fyrir því og tel mig hafa einhverja vissu fyrir því að þetta sé mál sem möguleiki er á að fáist samþykkt. Ég vona því að að lokinni þessari umræðu sem er hér að ljúka taki velferðarnefnd málið til sín og það fái skjóta meðferð.

Umsagnirnar voru jákvæðar og það eina neikvæða sem kom fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga var þetta með heildarendurskoðunina, að láta þetta bíða þess. Ég held að ég hafi fært ágætisrök fyrir því að svo verði ekki gert. Ég legg til að málið fari til velferðarnefndar og vonast til þess að það fái skjóta meðferð þar.