144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

almenn hegningarlög.

475. mál
[22:14]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi Pírata. Auðvitað er fáránlegt að guðlast sé refsivert í íslenskum lögum, að samkvæmt lögum sé hægt að refsa fólki fyrir guðlast. Það er tímaskekkja og rökin eru ekki nógu góð, það er hvort sem er aldrei notað. Þá á bara að henda því út og stendur ekkert í vegi fyrir því.

Af því að hv. þingmaður nefndi árásirnar í Frakklandi og burt séð frá öllum lögum um guðlast vil ég heyra hugmyndir hv. þingmanns um umburðarlyndi og tillitssemi fyrir mismunandi trúarbrögðum. Telur hv. þingmaður heppilegt að við ýtum undir það á einhvern hátt í samfélaginu og styðjum við það að fólk sýni hvert öðru umburðarlyndi og tillitssemi, ekki síst þegar kemur að eins heitum málefnum og trúmál eru? Að mínu viti er farsælast að egna ekki fólki saman á grundvelli trúarbragða heldur ættum við að reyna á einhvern hátt að taka tillit til þess og særa ekki aðra og vera ekki að egna fólk. Ég tek það fram að ég vil ekki færa það á nokkurn hátt í lög, en ég velti þessu þó fyrir mér í því samhengi og langar að heyra hvað hv. þingmaður hefur um það að segja um málið.