144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

almenn hegningarlög.

475. mál
[22:16]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Evelyn Beatrice Hall á að hafa sagt einhvern tímann — sem oft er ætlað Voltaire: Það getur verið að ég sé ósammála öllu sem þú segir en ég mun verja til dauðans réttinn til að segja það. Það er munur á tjáningarfrelsinu og tjáningunni sjálfri. Ég er hlynntur því að það sé löglegt að boða alls konar hryllilegar skoðanir, meðal annars þá skoðun sem ég las hér upp fyrr í dag undir dagskrárliðnum störf þingsins þar sem ég vitnaði í aðsenda grein í Morgunblaðinu í morgun sem mér þótti mjög ógeðfelld og ég tel boða mjög hættulega og vonda skoðun. En það verður að vera hægt að tjá slíkar skoðanir til að hægt sé að ræða þær.

Annar kostur er á einhverjum tímapunkti ofbeldi. Það eru bara tvær leiðir sem ég þekki til að afmarka vald: Önnur þeirra er lýðræði sem krefst tjáningarfrelsis og hin er ofbeldi sem ég vil bara ekki sjá og ég tel engan hér inni vilja sjá. Svo ég svari spurningu hv. þingmanns hvað varðar virðingu fyrir trúarbrögðum og trúariðkun annarra þá er ég einn af þeim sem telja mjög ógagnlegt að sýna trúarbrögðum fólks vanvirðingu. En svo hægt sé að hafa opinskáa og opna umræðu um trúarbrögð þarf fólk að geta tjáð skoðanir sínar og staðreyndin er sú, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að skoðanir margs fólks eru móðgandi enda erum við að tala um trúarbrögð þar sem eru sýnir og sögur og speki sem öllum hlýtur á einhverjum tímapunkti að finnast ámælisverð á einhvern hátt. Við þurfum því frelsi til að tala um það opinskátt og hreinskilnislega og ef við ætlum að tala hreinskilnislega um það þá getum við ekki lokað það innan þess ramma að það verði að vera kurteislegt eða málefnalegt ef út í það er farið. Þess vegna þykir mér mjög mikilvægt að gera annars vegar greinarmun á frelsi til að tjá eitthvað og hins vegar því sem tjáð er.

Ég vona að það svari spurningu hv. þingmanns.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.