144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

almenn hegningarlög.

470. mál
[22:19]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum, en það fjallar um heimilisofbeldi og nálgunarbann. Meðflutningsmenn mínir eru Karl Garðarsson, Páll Valur Björnsson, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir eða einn fulltrúi frá hverjum flokki. Eiga flestir flutningsmanna sæti í allsherjar- og menntamálanefnd þingsins, sem ég geri ráð fyrir að frumvarpið berist til að lokinni 1. umr.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði í almennum hegningarlögum sérstakt refsilagaákvæði sem taki sérstaklega til heimilisofbeldis. Með því er lögð sérstök áhersla á alvarleika brota sem talist geta til heimilisofbeldis. Tilgangur frumvarpsins er að draga úr tíðni heimilisofbeldis, vernda þolendur og um leið taka á vanda gerenda. Skilyrði þess að brot falli undir ákvæðið er að brot beinist gegn maka, fyrrverandi maka, barni eða öðrum sem er nákominn geranda og tengsl þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins. Um sérstakt refsiákvæði er að ræða sem beitt verður eftir atvikum samhliða öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga sem háttsemin getur einnig fallið undir. Frumvarpið felur jafnframt í sér að lögregla hafi heimild til að ákæra fyrir brot gegn nálgunarbanni. Í núverandi löggjöf sæta slík brot aðeins ákæru að kröfu þess sem misgert var við.

Undanfarin ár hafa íslensk stjórnvöld lagt áherslu á baráttuna gegn ofbeldi í nánum samböndum. Heimilisofbeldi er málefni sem varðar allt samfélagið og oft er um langvinn og erfið mál að ræða sem eru andlega erfið fyrir þolendur og aðstandendur og einnig erfið rannsóknar. Ofbeldi sem viðgengst á heimilum er ekki einkamál viðkomandi aðila heldur samfélagslegt mein. Í vinnu við gerð frumvarpsins voru kannaðar fyrirliggjandi skýrslur, gögn, upplýsingar um heimilisofbeldi á Íslandi. Jafnframt var könnuð þróun löggjafar á þessu sviði í Noregi og Svíþjóð. Dómaframkvæmd mála sem tengjast heimilisofbeldi var einnig könnuð með hliðsjón af beitingu dómstóla á 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1944. Töluverð vinna hefur því farið fram við þetta mál og vil ég að því sögðu þakka þeim Ingólfi Vigni Guðmundssyni, Karli Garðarssyni, Kjartani Ægi Kristinssyni og Eiríki Benedikt Ragnarssyni kærlega fyrir aðstoð við samningu frumvarpsins og þeim sem hafa komið að því á síðari stigum.

Tilefni og ástæða þess að við flutningsmenn leggjum fram þetta mál núna er að þegar lögreglustjórinn á Suðurnesjum tók þennan málaflokk til gagngerðrar endurskoðunar og fór yfir hann kom í ljós að fá heimilisofbeldismál fengu framgöngu innan réttarkerfisins. Úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili voru ekki nýtt og stuðning skorti fyrir þolendur og eftir atvikum gerendur, ósamræmi var við afgreiðslu mála og skráningu þrátt fyrir að verklagsreglur væru til staðar og heimilisofbeldi var ekki litið nægilega alvarlegum augum í samfélaginu. Þá voru tilkynningarnar fáar með tilliti til umfangs og traust virtist skorta, það virtist í raun skorta allt traust í kerfinu. Margþættur vandi var þess vegna uppi og málin voru mjög mismunandi. Þegar menn fóru að skoða þetta var farið í þá vinnu að hafa viðbrögðin sem markvissust og síðastliðin missiri hefur verið rekið á Suðurnesjum tilraunaverkefni sem kallast „Að halda glugganum opnum“. Verkefnið er unnið í samvinnu við fleiri aðila eins og heilsugæslu og félagsþjónustu og ég tel vera mjög mikilvægt að svona stofnanir geti unnið saman að framfaramálum. En þetta er allt gert í því markmiði að koma í veg fyrir ítrekuð brot og að ná fram varnaðaráhrifum með því að fleiri ákærur komi fram og þar af leiðandi næst líka traust fram hjá þolendunum af því að það vill oft skorta á traustið ef ekkert verður úr málunum nema þá kannski frekara ofbeldi. Þá hafa úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili verið nýtt betur og aðstoð við þolendur hefur verið betur nýtt.

En það er ekki nóg að gera þetta allt saman. Það verður að vera hægt að fylgja málunum eftir. Þar kemur þetta lagafrumvarp við sögu. Það vantar frekari lagaákvæði í lögin um heimilisofbeldi en eini munurinn á venjulegum brotum, þ.e. líkamsárásarmálum og líkamsárásarmálum sem geta flokkast undir heimilisofbeldi í dag, er refsiþynging samkvæmt 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Sú grein kom inn eftir að íslensk stjórnvöld vildu taka þennan málaflokk fastari tökum og refsiréttarnefnd var sett í það verkefni að skoða hvernig væri hægt að gera þetta. Þá var til skoðunar að taka inn sérstakt ákvæði um heimilisofbeldi inn í almenn hegningarlög. Á þeim tíma komst réttarfarsnefnd að því að það væri frekar rétt að setja refsiþyngingarástæðu í 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Eins og ég rakti áðan þá komst lögreglustjórinn á Suðurnesjum fyrir ári síðan að þeirri niðurstöðu eftir fyrstu mánuði skoðunar mála hjá þeim og eftir að verklagi hafði verið breytt að þessi vilji löggjafans hefði greinilega ekki skilað sér alla leið.

Ísland hefur undirritað Istanbúl-samninginn sem er til að sporna við ofbeldi gegn konum og innan nákominnar fjölskyldu og annað slíkt, refsingar hafa verið þyngdar og lög um nálgunarbann sett árið 2011. Þetta hefur allt verið gert til að stemma stigu við heimilisofbeldi en ekkert gengið. Við komumst að því og innanríkisráðuneytið var líka búið að komast að þeirri niðurstöðu að til þess að hægt væri að fullgilda Istanbúl-samninginn — við höfum bara gerst aðilar að honum en ekki fullgilt hann — þyrfti nauðsynlega að setja ákvæði sem þetta í lögin. Því komum við með þessa lagabreytingu fram nú. Hún ætti líka að geta orðið til þess að hægt verði að horfa á brotin yfir lengri tíma, hægt að auka rannsóknir á brotunum og auðvelda heimfærslu eða sönnunarfærslu í slíkum málum. Það er mjög mikilvægt atriði að hægt sé að taka á þessum málum. Bretar hafa komist að því að hvert pund sem er sett í það að sporna við heimilisofbeldismálum sparar 6 pund. Það má nefna að manndrápstíðni, þegar heimilisofbeldið kemur við sögu hér á Íslandi, er 40%. Það er töluvert hátt og allt of hátt. Þetta er eitthvað sem við þurfum að ná niður þannig að hér er um að ræða mjög mikilvægt atriði.

Varðandi refsingar þurfum við að skoða hvort hægt sé að setja inn úrræði þar sem refsingu er mögulega frestað skilorðsbundið gegn því að gerandi sæki sér viðeigandi aðstoð. Það er nefnilega ekki nóg að stoppa bara heimilisofbeldið sjálft, það þarf að hjálpa bæði gerendum og þolendum að endurhæfa sig, fá viðunandi aðstoð og vinna úr málinu til að þetta sé varanleg lausn. Það er kannski hægt að skipta þessu í þrjá þætti. Það eru fyrstu úrræðin þannig að það er komið að heimilinu og hjálpað, það eru fyrstu úrræðin, og heimilisofbeldið greint eins og hafið er á Suðurnesjum og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur hafist handa við breytt verklag líka og er að innleiða það. Svo er það eftirfylgnin, að löggjöfin sýni að eitthvað sé gert með þessa vinnu, að hún hafi einhverjar afleiðingar í réttarvörslukerfinu og í þriðja lagi eru það úrræði fyrir bæði þolendur og gerendur, að þeir geti fengið einhvers konar endurhæfingu og unnið úr sínum málum.

Þá ætla ég að koma að 2. gr. frumvarpsins sem er einnig breyting á almennum hegningarlögum en tengist nálgunarbanni. Ég tel það mjög mikilvægt atriði. Ef til vill finnst þingheimi ákvæði um heimilisofbeldi of stórt skref, vilja fara varlega í að innleiða það eða þingmenn vilja taka meiri tíma í að ræða það, en við þurfum alla vega að afgreiða það ákvæði sem ég ætla að fara að fjalla um varðandi nálgunarbannið og afgreiða það á þessu þingi því það er mjög brýnt. Í þessum málum er oft mjög erfitt að fá þolandann til að sýna frumkvæði. Hann er tilbúinn að aðstoða til að leysa málið, koma til samstarfs en kannski ekki vera sá sem leiðir. Lög um nálgunarbann voru sett árið 2011 þar sem lögregla og aðrir ættingjar geta farið fram á nálgunarbann á einstakling, en margir telja að fyrir mistök í lagasetningu hafi almennum hegningarlögum ekki verið breytt þannig að lögregla og aðstandendur gætu ákært eða farið fram á að það yrði ákært vegna brota á nálgunarbanni. Það er aðeins sá sem brotið er gegn sem getur farið fram á það. Þá er eiginlega nálgunarbannið fallið um sjálft sig í flestum tilfellum þegar um heimilisofbeldi er að ræða. Þetta er því ekki mikil lagabreyting en hún er mjög mikilvæg og ég vona að hún í það minnsta fái afgreiðslu á þessu þingi og heimilisofbeldi fái mikla og góða umfjöllun. Ef mönnum þykir það ákvæði of mikil breyting þá komum við aftur með það næsta haust en það er algert grundvallaratriði að við samþykkjum 2. gr. þessa frumvarps en ég vona auðvitað að við getum klárað málið í heild sinni.

Þá hef ég stiklað á því helsta í málinu. Ég legg til að frumvarpið fari til allsherjar- og menntamálanefndar og hlakka til að vinna að því með þingheimi.