144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

almenn hegningarlög.

470. mál
[22:32]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þetta frumvarp. Það er virkilega þarft og mikilvægt að við ræðum þessi mál — raunar erum við búin að vera að ræða þessi mál sl. tíu ár að minnsta kosti, auðvitað lengur — með einhverjum skipulegum hætti eins og þingmaðurinn fór hér í gegnum. Við getum ekki verið að bíða endalaust og ræða sömu hlutina aftur og aftur, það þarf að koma til aðgerða. Mér sýnist þingmaðurinn og þeir sem að málinu standa hafa unnið sína heimavinnu vel. Við þurfum að fara í gegnum þetta og taka betur á heimilisofbeldi og auðvitað nálgunarbanni sem við höfum verið að sjá að virkar ekki nægilega vel, samræming lögreglu og dómstóla er ekki nægilega mikil. Væntanlega skortir á að þau lagaákvæði séu skýr. Við sem störfum hér vitum alveg að oft fara mál með hraði til nefnda, það er mikið um að vera og okkur yfirsést ýmislegt og við þurfum að geta lagað það.

Ég vil aðeins spyrja þingmanninn um þetta frumvarp og svo austurrísku leiðina svokölluðu, sem hefur verið farin á Suðurnesjum ef ég veit rétt. Kemur hún eitthvað sérstaklega inn í þetta mál, inn í hegningarlögin eða er hún til hliðar, svo að ég hafi yfirsýn yfir málið?