144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

almenn hegningarlög.

470. mál
[22:33]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta hefur verið í tíu ár til umfjöllunar, það eru tíu ár síðan refsiréttarnefnd skoðaði það síðast, eða rúm tíu ár, og komst að þessari niðurstöðu. Ég vil líka taka undir að nálgunarbann og heimilisofbeldi tengist mjög mikið og þau úrræði vinna saman, nálgunarbann er úrræði til að leysa úr heimilisofbeldinu og reyna að laga ástandið.

Það er líka kannski eðlilegt að á meðan verið er að taka loksins á málaflokknum og fara inn í hann að það taki einhvern tíma fyrir lögreglu og dómstóla að stilla sig saman og finna leiðina. Þá er einmitt kjörið að ræða þetta á Alþingi á sama tíma til að taka strax á þeim vafaatriðum sem koma upp og fjalla um þau, þannig að ekki sé að þróast einhver venja sem er í andstöðu við markmiðið.

Varðandi austurrísku leiðina og það sem þau hafa verið að gera á Suðurnesjum, það er svolítið eins og löggjöfin er í dag og tengist, það eru þessi næstu skref sem við erum meira að fjalla um í þessu frumvarpi. Hitt er meira á frumstigi og er alveg í góðum málum í dag. Vandamálið hingað til hefur bara verið það að þau úrræði sem löggjöfin og kerfið okkar býður upp á hafa ekki verið nýtt. Það er það sem þetta hefur snúist um, sem lögreglan á Suðurnesjum er að gera og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið upp núna.