144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

virðisaukaskattur.

411. mál
[23:16]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni andsvarið og aðallega fyrst og fremst stuðninginn við málið. Ég kom að því í ræðu minni að við hefðum fyrst farið með þetta í þingsályktunartillögu, tilgangur þess þá var einmitt að reyna að gera þetta samhliða heildarendurskoðun á virðisaukaskattsumhverfinu, eins og kemur skýrt fram í stefnu hæstv. fjármálaráðherra að einfalda virðisaukaskattskerfið. Það hefur verið að gefa eftir undanfarinn áratug. Það er auðvitað okkar öflugasta tekjuöflunarkerfi.

Við förum svo sem ekkert í grafgötur um það, ég og meðflutningsmenn mínir, að það eru mótsagnakennd markmið sem um er að ræða. Frumvarpið er til einföldunar á virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar en um leið er þversögn í því og gengur það gegn þessari einföldun á virðisaukaskattskerfinu sem slíku, þ.e. að fækka undanþágum. Engu að síður trúum við því að þetta almannaheillastarf og uppeldislega hlutverk og mikilvægi sjálfboðaliðastarfsins skili það miklum fjármunum að það sé þess virði að fara út í þessar breytingar og samhliða því að efla auðvitað mannvirkjagerð til að ná utan um þetta mikilvæga félagsstarf.