144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í morgun var opinn fundur í velferðarnefnd þingsins. Opni fundurinn var í tilefni af 25 ára afmæli samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Á fundinn mættu ungmenni frá umboðsmanni barna, Barnaheillum og UNICEF á Íslandi. Ákveðið var að leita til þeirra á þessum tímamótum þar sem starfsemi þeirra lýtur sérstaklega að réttindum barna.

Ungmennin sem mættu á fundinn voru átta talsins og á aldrinum 14–18 ára og komu sem fulltrúar ungmennaráða framangreindra aðila. Umræðuefni fundarins voru meðal annars þátttaka og réttindi barna, skólakerfið og menntun og velferðarmál. Á fundinum voru ungmennin með stuttar framsögur um hvert umræðuefni og áttu að lokum skoðanaskipti við þá hv. þingmenn er sátu fundinn.

Fundurinn var mjög góður. Áhugavert var að hlusta á ungmennin sem voru dugleg að minna hv. þingmenn á skoðanir sínar og jafnframt að ítreka þá mikilvægu staðreynd að hlusta verður betur á börn og ungmenni þegar ákvarðanir eru teknar sem varða líf þeirra og störf. Á það einnig við um þinglega meðferð mála er varða börn og ungmenni.

Það sem ungmennin ræddu meðal annars var að færa þurfi skólakerfið nær nútímanum. Gefa eigi börnum og ungmennum tækifæri til að skila inn mati á störfum kennara og annarra er vinna með þeim. Tryggja þurfi betur tungumálakennslu fyrir erlenda nemendur þannig að þeir geti haldið við móðurmáli sínu. Einnig ræddu ungmennin skóla án aðgreiningar og val barna og foreldra í þeim efnum, ræddu forvarnir og stuðning við börn og ungmenni með geðrænar raskanir og lýstu jafnframt áhyggjum af biðtíma inn á BUGL.

Þessi stutti ræðutími dugar engan veginn til að telja upp allt það áhugaverða sem börnin og ungmennin ræddu á fundinum. Það er að minnsta kosti hægt að segja eftir fundinn að okkur er öllum vel óhætt að hlusta á það sem ungmenni og börn hafa fram að færa. Það eru þau sem taka við af okkur sem hér erum.