144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar alltaf að halda á lofti umræðunni um málskotsrétt þjóðarinnar, þ.e. að ákveðinn fjöldi kosningarbærra manna geti knúið fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem Alþingi hefur afgreitt. En í þetta sinn langar mig að fjalla um aðra tegund af þjóðaratkvæðagreiðslu í samhengi við það sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir nefndu áðan hvað varðar störf þingsins og hvernig við vinnum hér á þessum bæ.

Mörg mál eru í nefndum og eins og sumir segja komast þau ekki þaðan út eða eru föst í nefndum. Þó vantar aldrei mál á dagskrá. Við höfum alltaf nóg af málum á dagskrá. Ástæðan er sú að það tekur ofboðslega langan tíma að ræða málin. Eins og hv. þingmenn vita, og stór hluti þjóðarinnar, hefur minni hlutinn á Alþingi einungis eitt tæki til að ráða gangi mála — og það er að tala. Það þarf ekki endilega að vera um málþóf að ræða, það er bara þannig að þegar fólk skynjar að ekki er hlustað á það talar það hærra. Þá talar það lengur og þá talar það oftar og reynir að tyggja sömu rökin aftur og aftur í þeirri veiku von að einn daginn muni einhver hlusta.

Ég legg til að til þess að afgreiða hér fleiri mál og geta rætt þau á mun málefnalegri nótum fái minni hlutinn fleiri tæki, annað tæki en einfalt málfrelsi til að haga málum þingsins að einhverju leyti. Gleymum því ekki að minni hlutinn er hér ekki kosinn af 0% þjóðarinnar. Meiri hlutinn situr í skjóli atkvæða 51,1% en hefur 60% þingmanna, 100% valdsins eins og ég hef svo oft áður nefnt hér. Ég legg til að ef minni hlutinn, svo sem þriðjungur af Alþingi, gæti knúið fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um mál yrði sú heimild mjög sjaldan nýtt. Áhrifin yrðu fyrst og fremst þau að við mundum vinna meira saman, mundum komast fyrr að því hvað gengi upp og hvað gengi ekki upp og við mundum eiga miklu siðmenntaðri samtöl. Við þyrftum ekki að hafa þau jafn mörg og þau þyrftu ekki að vera jafn löng. Þá gætum við afgreitt mun fleiri þingmál mun betur en við gerum nú.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.