144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Í gær gafst færi á að koma að nokkrum þingmannamálum og þar á meðal mælti ég fyrir frumvarpi sem hefur að markmiði að styrkja og verja sjálfboðaliðastarfið í íþróttahreyfingunni. Í ræðu minni kom ég inn á mikilvægi íþróttahreyfingarinnar, félagsauðinn sem skapast af skipulögðu íþróttastarfi, uppeldishlutverkið, forvarnagildi og hagræn áhrif. Ég vil vekja athygli þingheims á stefnu mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem í gildi er og tekur mið af þeim lagaskyldum sem ríkið hefur samkvæmt íþróttalögum, alþjóðalögum og samningum sem tengjast málefnum stofnana og frjálsra félagasamtaka sem fara með íþróttamál í landinu.

Við fáum reglulega að heyra að við styðjum ekki nægilega vel við íþróttahreyfinguna. Skemmst er að rifja upp ummæli formanns Samtaka íþróttafréttamanna frá afhendingu verðlauna íþróttamanns ársins þar sem hann kvað fast að orði og gagnrýndi harðlega rýrt framlag stjórnvalda til afreksíþrótta.

Virðulegi forseti. Í stefnu hæstv. íþróttamálaráðherra sem snýr að keppnis- og afreksíþróttum kemur meðal annars fram mikilvægi fyrirmynda og að sérsamböndum verði því gert fjárhagslega auðveldara að halda úti landsliðum og taka þátt í alþjóðastarfi sem fulltrúar Íslands. Í þessu samhengi ætla ég að minnast á A-landslið okkar í körfubolta karla sem afrekaði það að komast í lokaúrslit Evrópumóts landsliða í fyrsta skipti. Þar hefur verið stofnaður áhugamannahópur þar sem gamlir velunnarar íþróttarinnar hafa sameinast í að styðja sambandið til að fjármagna það verkefni. Það er vel, virðulegi forseti, en ef ekki þegar þá trúi ég ekki öðru en að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin gangi í lið með þeim öfluga sjálfboðaliðahópi og Körfuboltasambandinu og uppfylli loforð stefnunnar í verki.