144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú hafa borist fregnir af því að fjármálaráðherra sé í miklum vandræðum með að koma fram með útfærslur á því sem lengi hefur verið kallað eftir á Alþingi sem er að keyptar verði upplýsingar úr skattaskjólum til að upplýsa um skattsvik Íslendinga. Þetta mál hefur verið að væflast í fjármálaráðuneytinu missirum saman og nú ber svo við að ráðherrann gefur þær yfirlýsingar að líklega þurfi löggjöf til að koma. Ég hlýt að segja skýrt að ef það stendur á hinni lagalegu hlið erum við í stjórnarandstöðunni boðin og búin að greiða leið frumvarpa í gegnum þingið. Það þarf bara að koma með þau fram. Og ef hæstv. ráðherra dettur eitthvað annað í hug til að reyna að koma sér undan efndum í þessu efni erum við alveg til í að reyna að hjálpa við úrlausn þeirra nýju afsakana líka. Það gengur ekki að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin vinni ekki af meiri ákveðni í þessu máli. Það er mjög mikilvægt að afla þessara upplýsinga. Þýskaland sem gerir gríðarlegar kröfur til réttarheimilda og öryggisgagna hefur talið sér mögulegt að kaupa gögn af þessum toga og nota við endurákvörðun skatta.

Þetta er ekki síður mikilvægt í ljósi þeirra upplýsinga sem ég fékk í svari frá fjármálaráðherra á mánudag um tekju- og eignaskiptingu mörg ár aftur í tímann þar sem sú mynd verður mjög skýr að ójöfnuður hefur aukist. Það dró lítillega úr honum eftir hrun en hann er samt miklu meiri sama á hvaða mælikvarða er litið en hann var allan tíunda áratuginn. Ríkasta prósentið og ríkasta tíundin úr (Forseti hringir.) einu prósenti á sífellt meira og (Forseti hringir.) það er mjög mikilvægt að jafna þennan leik.