144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

ungt fólk og fyrstu íbúðarkaup.

[15:45]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni kærlega fyrir að hefja þessa umræðu og fyrir þær áherslur sem komu fram í hans máli. Ég er mjög sammála þingmanninum um að við þurfum að breyta um stefnu, við þurfum að læra af reynslu síðustu ára og áratuga. Við getum ekki farið sömu leið aftur, við getum ekki aftur hvatt til þess að opna fyrir lánsveð, við getum ekki aftur hvatt til þess að hækka lánshlutföll heldur þurfum við að horfa á kerfið í heild sinni. Ég held að það sé svo mikilvægt að hafa það í huga. Stundum heyrum við fólk tala fyrir séreignarstefnu eða eins konar leiguíbúðastefnu. Ég held að við þurfum að fara að horfast í augu við að þetta eru tvær hliðar á sama peningnum. Við erum að tala um húsnæðismarkaðinn, hvernig fólk kemst inn á hann eða hvar fólk á að búa meðan það er að safna sér fyrir útborgun í íbúð. Eigum við að gera því kleift að safna fyrir útborgun í íbúð og hvernig eigum við síðan að tryggja öryggi fólks þegar það er á annað borð búið að taka ákvörðun um að fara í stærstu einstöku fjárfestinguna á ævi sinni, að tryggja að sömu leikreglurnar gildi varðandi alla á húsnæðismarkaðnum?

Hv. þingmaður var fulltrúi þingflokks sjálfstæðismanna í mikilli vinnu á vegum ráðuneytisins um framtíðarskipan húsnæðismála. Ég er mjög ánægð með þær tillögur sem komu úr þeirri vinnu. Þar er einmitt hugað að öllum þessum atriðum, hvort sem fólk býr í leiguíbúðum, vill kaupa sér húsnæði eða kaupa sér búseturétt, og við segjum að við ætlum að tryggja öllum heimilum landsins öryggi. Það er nokkuð sem fólk hefur ekki búið við á Íslandi.

Í tilefni þessarar umræðu rifjaði ég upp grein sem ég skrifaði í janúar 2013 þar sem ég skoðaði könnun frá Hagstofunni þar sem lífskjör íslenskra og evrópskra heimila árið 2010 voru borin saman. Þar kom fram að við Íslendingar höfum verið Evrópumeistarar í vanskilum húsnæðislána, ekki bara eftir hrun heldur langt aftur í tímann. Við höfðum sem sagt vermt efstu sætin í vanskilum Evrópu um nokkurt skeið. Á þessum tíma áttu þrefalt fleiri heimili á Íslandi í miklum erfiðleikum með að standa undir útgjöldum en annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta er þrátt fyrir að mánaðarleg útgjöld íslenskra heimila vegna húsnæðis sem hlutfallsráðstöfun af tekjum séu lægri en í mörgum öðrum Evrópulöndum. Í Markaðspunktum Arion banka í tilefni af þessari skýrslu var því einmitt velt upp hvort það gæti verið ástæðan fyrir því að hér leggur fólk ekki fyrir. Fólk leggur áherslu á að eignast húsnæði fyrr og það á mjög lítið af eigin fé þegar það fer út í að fjárfesta og er þar af leiðandi mjög skuldsett. Erlendis er fólk eldra þegar það ákveður að kaupa húsnæði, það er erfiðara að komast í gegnum greiðslumat og þar af leiðandi eru minni líkur á að viðkomandi íbúðareigandi lendi af og til í vanskilum.

Í tillögum verkefnisstjórnarinnar er tekið á þessu. Þar eru tillögur sem snúa að því að gera húsnæðissparnað fyrir ungt fólk að varanlegu fyrirkomulagi á Íslandi. Við þekkjum svo sannarlega reynsluna af því að taka af lögbundinn húsnæðissparnað. Afleiðingin var sú að fjórum, fimm árum seinna komu inn á húsnæðismarkaðinn heilu kynslóðirnar sem áttu ekkert eigið fé.

Þar er líka verið að segja að til þess að fólk hafi svigrúm til að leggja til hliðar þurfum við að ná niður húsnæðiskostnaðinum þegar fólk er á leigumarkaði. Það er lagt til í tillögum hópsins að það komi stofnstyrkir eða stofnframlög frá hinu opinbera. Það er verið að tala um að það þurfi að auka húsnæðisstuðninginn og það er líka þessi áhersla á að það sé ekki nóg að styðja við eftirspurnina með auknum húsnæðisstuðningi heldur verði líka að tryggja nægt framboð. Það er verulegt áhyggjuefni að sjá, nákvæmlega eins og hv. þingmaður fór í gegnum, að við höfum kannski ekki hugað nægilega vel að því sem snýr að framboðshliðinni.

Mjög áhugaverðar tillögur voru um skattkerfisbreytingar sem sneru að því að umbuna þeim sem eiga eina eða tvær íbúðir með því að lækka fjármagnstekjuskattinn og búa líka til hagkvæmara skattumhverfi fyrir leigufélög og allt með þeirri hugsun að ná niður kostnaði við að leigja svo fólk hafi efni á að leggja pening til hliðar til að kaupa húsnæði.

Það var líka talað um breytingar á byggingarreglugerðinni. Við erum þegar búin að fara í gegnum það. Þrisvar sinnum erum við búin að gera breytingar á byggingarreglugerðinni þannig að það er mikið svigrúm innan núverandi reglugerðar til að byggja hagkvæmt. En svo komum við líka að sveitarfélögunum. Þau bera mjög mikla ábyrgð á því að móta sínar eigin húsnæðisáætlanir (Forseti hringir.) og taka af festu á þeirri ábyrgð sem þau bera á því að tryggja fjölbreytt lóðaframboð þegar kemur að valkostum varðandi húsnæði í sínum sveitarfélögum.