144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

ungt fólk og fyrstu íbúðarkaup.

[15:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Sú alvarlega staða sem ungt fólk býr við í dag á húsnæðismarkaði einkennist fyrst og fremst af háu fasteignaverði, þar af leiðandi háu leiguverði sem er drifið áfram af skorti. Þess vegna er mikilvægt að auka framboð af húsnæði með öllum tiltækum ráðum. Ég er sammála hæstv. ráðherra og frummælanda þessarar umræðu um að það er eðlilegt að draga úr skuldsetningu sem kostur er og hafa ekki í frammi aðgerðir sem hvetja til skuldsetningar. Það er eðlilegt að halda áfram að hemja lánsveð og hækka ekki lánshlutföll.

Séreignarsparnaðarleiðin sem komið hefur verið á er ágæt fyrir sinn hatt, en hún er stórgölluð og dugar ekki því að hún er auðvitað bundin því að fólk hafi atvinnutekjur. Við viljum að ungt fólk sé í námi og geti síðan komist út á húsnæðismarkaðinn að námi loknu. Því fólki eru allar bjargir bannaðar í núverandi kerfi þannig að það þarf að útfæra þessa leið miklu betur til að hún nýtist þeim sem eru í námi.

Það þarf að halda byggingarkostnaði niðri. Það er athyglisvert að sjá hjá Reykjavíkurborg aukna áherslu á minni íbúðir. Það er búið að skipuleggja allt of mikið af stórum íbúðum í áranna rás, undanfarin 10–20 ár. Það þarf að leggja meiri áherslu á minni íbúðir, auka framboð leiguíbúða og þar þarf ríkið auðvitað að koma að með myndarlegum hætti. Við bíðum eftir frumvörpum ráðherra þar um.

Hvað á síðan að gera við fólk sem ekki á pening? Mér finnst umræðan snúast um það of mikið að þá eigi að loka það fólk inni. Ég verð að segja alveg eins og er að þegar staðan er eins og hún er á húsnæðismarkaðnum í dag, að leiga á lítilli íbúð er tvöfalt hærri en afborgun af 40 ára húsnæðisláni, hlýtur maður að spyrja: Af hverju er brýnasta verkefnið að banna fólki að taka 40 ára húsnæðislán? Af hverju er það leiðin sem á að fara ef í dag er sannarlega helmingi ódýrara að borga af 40 ára láni en leigu? (Forseti hringir.) Þar verður maður (Forseti hringir.) að hugsa um að þó að þau lán séu dýr og óhagstæð (Forseti hringir.) eru þó þau lán fyrir þá sem ekki eiga peninga.