144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

ungt fólk og fyrstu íbúðarkaup.

[15:53]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Fasteignamarkaðurinn er erfiður fólki sem á ekki þó nokkra upphæð til að leggja í útborgun á íbúð, enda íbúðaverð hátt. Dýr og ótraustur leigumarkaður gerir ungu fólki enn torveldara að leggja peninga fyrir og hrekur marga út í að kaupa frekar en að leigja þó að aðstæður þess bjóði í raun ekki upp á það. Þetta stuðlar svo aftur að enn meiri eftirspurn á fasteignamarkaði og þannig að enn hærra verði og því miður hafa aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar með hinni svokölluðu skuldaleiðréttingu gert bilið milli þeirra sem nú þegar eru komnir inn í kerfið og fá þá leiðréttingu hvort sem þeir eru í greiðsluvanda eða ekki og hinna enn breiðara.

Ég er þeirrar skoðunar að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna ættu að fara varlega í að stæra sig um of af húsnæðissparnaðarleiðinni. Hún er augljóslega útspil til að slá á þá gagnrýni að skuldatilfærslan mikla hafi ekki gagnast ungu fólki og leigjendum. Það getur hins vegar seint talist stórkostleg greiðvikni við ungt fólk að leyfa því náðarsamlegast að nota sinn eigin lífeyrissparnað til íbúðarkaupa. Við hljótum að hafa þann metnað að vilja sjá kerfi sem gefur fólki bæði kost á að koma þaki yfir höfuðið og tryggja sér góð lífeyriskjör að lokinni starfsævi.

Ég vil þó að lokum sérstaklega vara við því að menn freistist til að nota þetta mál sem enn frekari átyllu til að slá af frekari kröfum í byggingarreglugerð sem einungis leiðir til húsnæðis með verra aðgengi og enn meiri kostnaðar til lengri tíma. Það skortir nefnilega ekki óaðgengilegt húsnæði en það er hins vegar dýrt að breyta því sem þegar hefur verið byggt.