144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

ungt fólk og fyrstu íbúðarkaup.

[15:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við ræðum hérna um ungt fólk og fyrstu íbúðarkaupin. Í kosningabaráttunni lofuðu báðir stjórnarflokkarnir lyklafrumvarpi. Það væri áhugavert að vita hvaða áhrif lyklalög, ef slíkt frumvarp yrði samþykkt á Alþingi, mundu hafa á fyrstu íbúðarkaup ungs fólks og hvenær stjórnarflokkarnir hyggist leggja fram slíkt frumvarp. Í kosningabæklingum og loforðum Sjálfstæðisflokksins er nálgunin slík að þetta er málað upp sem sterkari staða gagnvart fjármálastofnunum, tækifæri til að byrja upp á nýtt, að þeir sem ráða ekki við greiðslur af íbúðarhúsnæði eigi að fá tækifæri til að „skila lyklinum“ í stað gjaldþrots. Þetta var sem sagt nálgun Sjálfstæðisflokksins í kosningabaráttunni með sitt kosningaloforð. Allir gera náttúrlega ráð fyrir því að ekki sé verið að tala um afturvirk lyklalög sem væru líklega allverulegt brot á stjórnarskrá heldur inn í framtíðina, þ.e. að þegar fólk kaupir sér eign eftir að slík lög yrðu samþykkt gæti það skilað lyklunum ef það gæti ekki staðið við afborganir án þess að fara í gjaldþrot.

Ég hef aldrei keypt íbúðarhúsnæði og mun aldrei kaupa mér íbúðarhúsnæði. Það að taka stórt lán fyrir því og vita ekki hvað það getur stökkbreyst kemur ekki til greina, ég býð ekki fjölskyldu minni upp á það. Ef það væru aftur á mót lyklalög í landinu mundi ég vita að ef ég þyrfti að skila lyklunum á einhverjum tímapunkti gæti ég skilað lyklunum, tapað því sem ég lagði út í upphafi og því sem ég væri búinn að borga en væri ekki verr staddur en það.

Framsóknarflokkurinn var með sams konar loforð í sínum kosningastefnuskrám þar sem hann lofar því að setja lyklalög, með leyfi forseta, „sem geri lánþega kleift að afsala eign sinni til lánveitanda (Forseti hringir.) án þess að það leiði til gjaldþrots. Slík lög fela í sér ríkari ábyrgð lánveitenda“. (Forseti hringir.) Hvar stendur þetta mál? spyr ég hæstv. ráðherra og (Forseti hringir.) formælanda í þessum sérstöku umræðum.