144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[16:55]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem er, eins og hér hefur komið fram, verulega umdeilt mál að mörgu leyti. Ég get tekið undir nánast hvert orð í ræðu hv. þm. Birgittu Jónsdóttur hér á undan og kannski sérstaklega það sem varðar excel-tilhneiginguna þegar verið er að tala um fólk. Ég hlustaði á framsögu hæstv. ráðherra og andsvör við hana og mér finnst það mikið umhugsunarefni hversu fjarri daglegt líf fólks er stundum umræðunni og hversu upptekin við erum oft af tölum og dálkum, við sem eigum hér að skapa ramma utan um samfélagið.

Ég get ekki látið hjá líða, virðulegi forseti, í þessari umræðu að vitna til skýrslu velferðarvaktarinnar sem lögð var fram á dögunum, í janúar. Þar eru tillögur um aðgerðir til að vinna bug á fátækt. Þetta er svo ótrúlega dæmigert að mörgu leyti fyrir það þegar fólk gerir hlutina í vitlausri röð. Skýrsla velferðarvaktarinnar um aðgerðir til að vinna bug á fátækt varðar líka fólk á fjárhagsaðstoð. Hún varðar líka börn fólks sem var á atvinnuleysisbótum og hefur verið hrifsað þaðan með einu pennastriki. Þessi skýrsla varðar nefnilega ekki bara suma. Í henni er ekki gert ráð fyrir því að fólk hverfi við það að detta út úr kerfum eins og stytting atvinnuleysisbótatímabilsins virtist gera, þegar umræðan var sú að það var engu líkara en málið snerist bara um að láta dálka stemma. Hvert á fólkið að fara? Hvert eiga þeir einstaklingar að fara, þær fjölskyldur og þau börn sem eru háð samfélaginu, félagsskapnum um það að mynda samfélag, um framfærslu til daglegra nauðsynja? Hvert á það fólk að fara?

Virðulegur forseti. Sú sýn sem er dregin hér upp lýsir því að ráðherrann og ríkisstjórnin hefur algjörlega misst sjónar á því um hvað samfélag snýst. Algjörlega misst sjónar á því. Við vissum það alla tíð meðan hrepparnir voru og hétu hvert var eitt meginhlutverk sveitarfélaganna. Eitt af meginhlutverkum sveitarfélaganna var að þegar allt kemur til alls tryggjum við að allir fái húsaskjól og að borða. Það hét meira að segja í gamla daga að segja sig til sveitar. Og af hverju? Það var vegna þess að sveitin leit svo á að hún bæri ábyrgð, líka gagnvart sínum minnstu bræðrum, líka gagnvart þeim sem tóku engum skilyrðingum, sem sinntu engum girðingum og engum mörkum og virkniúrræði þeirra tíma dugðu ekki á.

Hér er nefnilega verið að breyta samfélagi. Hér er nefnilega verið að leggja til að samfélaginu sé breytt úr því að við berum sameiginlega ábyrgð hvert á öðru yfir í að það sé viðurkennt og eðlilegt að pína og svelta fólk sem á í mestum erfiðleikum í samfélaginu. Virðulegur forseti. Það er ekki með nokkru móti ásættanlegt. Þingflokkur Vinstri grænna mun leggjast gegn þessu máli af miklum þunga. Það er okkar sameiginlega hlutverk að ráðast gegn fátækt í landinu. Ég trúi því að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sé mér sammála með það. Oftar en ekki hefur hún verið sú rödd af ríkisstjórnarbekknum sem mestum skilningi hefur lýst á kjörum þeirra sem erfiðast eiga í samfélaginu. Oftar en ekki. En það að leggja fram frumvarp um að hægt sé að skera niður fjárhagsaðstoðina stig af stigi með refsiaðgerðum og refsinálgun, inn í einhvers konar farvegi með niðurlægjandi aðferðum, það samræmist ekki þeirri hugmyndafræði sem ég hélt að hæstv. ráðherra stæði fyrir. Ég hélt ekki.

Ég held að okkur öllum sé hollt að lesa í skýrslu velferðarvaktarinnar samantekt um tillögur hennar. Þar segir í kaflanum um viðmið til lágmarksframfærslu, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld yfirfari forsendur og útreikninga sem liggja að baki fjárhæða til lágmarksframfærslu með það að markmiði að einstaklingar, fjölskyldur og barnafjölskyldur búi ekki við fátækt.“

Líka þetta fólk, að það búi ekki við fátækt. Í tillögunni sem kemur í framhaldinu segir, með leyfi forseta:

„Skoðað verði hvort slík viðmið“ — hér er átt við neysluviðmið sem velferðarráðuneytið gaf út árið 2011 — „eigi að vera lögbundin eða hvort þau eigi að vera til hliðsjónar (leiðbeinandi) eins og nú er varðandi fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Einnig verði skoðað hvort slíkar bætur eigi að skerðast vegna tekna maka og beitingar svokallaðra virkniúrræða.“

Það verði skoðað hvort eigi að skerða bæturnar við beitingu virkniúrræða. Hvað þýðir það, virðulegur forseti? Hvað þýðir að það eigi að skoða hvort eigi að beita skerðingum og leggja svo til frumvarp sem er nákvæmlega um það á sama tíma? Hvort er það sem ráðherrann vill? Vill ráðherrann fara að tillögum velferðarvaktarinnar sem hv. fyrrverandi ráðherra, Siv Friðleifsdóttir, hefur talað fyrir í fjölmiðlum, er það stefnan, eða er það refsifrumvarp ráðherrans? Hvort er það?

Í skýrslu velferðarvaktarinnar á bls. 14 er vísað til frumvarps hæstv. ráðherra. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nýlega var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum (skilyrði fjárhagsaðstoðar). Í inngangi athugasemda við frumvarpið segir: ,,Annars vegar er ráðherra falið að gefa út leiðbeinandi reglur til sveitarfélaga um framkvæmd fjárhagsaðstoðar þar sem m.a. sé kveðið á um viðmiðunarfjárhæðir fjárhagsaðstoðar sem sveitarfélög geta nýtt sér við setningu eigin reglna um framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Hins vegar er lagt til að sveitarfélögin fái skýrari heimildir til að skilyrða fjárhagsaðstoð félagsþjónustu sveitarfélaga við virkni þeirra sem eru vinnufærir og fá fjárhagsaðstoð þar sem þeir hafa ekki fengið störf.““

Svo segir í skýrslunni: „Velferðarvaktin telur rétt að starfshópurinn fylgist náið með hvernig frumvarpinu reiðir af í þinginu.“

Af hverju vill velferðarvaktin að fylgst sé náið með því hvernig frumvarpinu reiðir af í þinginu? Af hverju vill velferðarvaktin það? Er það kannski vegna þess að velferðarvaktin telur að stjórnvöld, eins og segir á bls. 3, styðji betur og á réttlátari hátt við tekjulágar barnafjölskyldur með því að einfalda og efla bótakerfið sem tekur til barnafjölskyldna, og að það eigi að yfirfæra forsendur og útreikninga sem liggja að baki fjárhæða til lágmarksframfærslu með það að markmiði að einstaklingar, fjölskyldur og barnafjölskyldur búi ekki við fátækt? Skyldi það vera þess vegna sem velferðarvaktin brýnir okkur alþingismenn að fylgjast vel með því hvert við erum að fara með frumvarpi ráðherrans?

Virðulegur forseti. Ráðherranum er sannarlega nokkur vandi á höndum þegar sveitarfélögin knýja dyra vegna þess að þau fá fyrirvaralaust í hausinn aukið álag því að nýjar 500 milljónir falla á þau í kjölfarið á styttingu atvinnuleysisbótatímabilsins. Það er samningsbundinn réttur, réttur sem verður til og kemur til af hverju? Samskiptum verkalýðshreyfingarinnar við atvinnurekendur á vinnumarkaði. Og sveitarfélögin snúa sér til stjórnvalda og biðja um skilning. Ráðherranum er nokkur vandi á höndum, það er skiljanlegt. Hins vegar er það svo að ráðherra fjölskyldumála, ráðherra félagsmála og ráðherra baráttu fólks gegn fátækt getur ekki lagt þetta til. Hann getur ekki lagt þetta til nema að tillögur velferðarvaktarinnar séu bara til skrauts, að tillögur velferðarvaktarinnar séu í raun ekki til þess að taka mark á. Eru þær ekki til þess að taka mark á? Viljum við ekki leggja þær til grundvallar, staldra við og berjast gegn fátækt og niðurlægingu fjölskyldna og barna í þessu landi? Er það ekki það sem við viljum gera? Það gengur ekki að gera það á sama tíma og menn leggja til þessar skilyrðingar.

Ég vil trúa því, virðulegur forseti, og sé að hæstv. ráðherra hefur beðið um orðið í andsvari við mig, að hæstv. ráðherra sé reiðubúinn til þess að ljá máls á því að nefndin í meðförum málsins endurskoði þetta alvarlega. Ég vil trúa því að þetta sé ekki eindreginn vilji ráðherrans. Þetta er svo vond nálgun. Ég held að við sem höfum reynslu af því að ala upp börn og bisa við að koma þeim til manns vitum að það er ekki leiðin til uppbyggilegs lífs og jákvæðra samskipta að pína fólk eða refsa því. Það hefur sem betur verið víðast hvar lagt af.

Það sem hér er í brennidepli er mikilvægi þess að við í þinginu, og ég biðla til ráðherra og annarra þeirra sem láta sig þessi mál varða, er að við gleymum ekki meginhlutverkum samfélagsins. Það er mikilvægt að skila ríkissjóði án halla. Það er mikilvægt að tryggja góðar og skýrar rekstrarforsendur sveitarfélaga, en sveitarfélögin eru ekki fyrirtæki. Sveitarfélögin eru ekki bara rekstrareiningar. Sveitarfélögin eru fyrst og fremst samfélög. Og góð og sterk samfélög eru þeirrar gerðar að hver einasti maður og hver einasta kona og hvert einasta barn á að búa við réttinn til þess að lifa með reisn. Að lifa með reisn og án þess að vera niðurlægður eða þurfa að búa við lítilsvirðingu stjórnvalda. Þetta er mikilvægt verkefni. Þetta er mikilvægt hlutverk.

Í frumvarpi ráðherrans til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sakna ég þeirra tóna sem koma fram hjá velferðarvaktinni sem er skilningur á kjörum fólks, sem er skilningur á kjörum almennings, skilningur á kjörum fátæks fólks á Íslandi, en fátækt, eins og hér hefur komið fram í fyrri ræðum, er glæpur gegn fólki. Við eigum að sameinast um það að eyða henni.

Ég fagna þess vegna sérstaklega tillögum velferðarvaktarinnar og vil hvetja ráðherrann eindregið til þess að fylgja eftir af festu og ákveðni tillögum hennar vegna þess að við sem samfélag erum í þeirri stöðu í samanburði við þjóðir heims að við getum útrýmt fátækt. Við getum það. Og við getum sérstaklega horft til þess annars vegar að eyða fátækt barna og hins vegar að eyða því sem kallað er hér í tillögunum sárri fátækt. Við eigum að gera það. Frumvarp hæstv. ráðherra um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er ekki leiðin til þess.