144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:12]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af því að hæstv. ráðherra byrjaði á því að gefa mér einkunnir fyrir ræðu mína þá ætla ég líka að lýsa vonbrigðum með nálgun hæstv. ráðherra sem er því miður býsna algeng í andsvörum við ráðherra í núverandi ríkisstjórn, það er útgangspunkturinn: Voru þið eitthvað skárri? Það er ekki uppbyggileg nálgun í umræðu.

Já, ég hef verið sömu skoðunar lengi og ég hef orðað þá skoðun bæði við þá sem komu að málinu í Hafnarfirði og í Reykjavík. Ég er raunar þeirrar skoðunar, og ég held að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði á flokksvísu séum þeirrar skoðunar að ekki séu lagalegar forsendur til að gera þetta eins og málin standa núna. Ég er raunar þeirrar skoðunar að við eigum ekki að búa svo um í þessum lögum að það sé heimilt.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hún virkilega að stunda málflutning sinn hér án þess að ræða um innihald málsins? Ætlar hún fyrst og fremst að horfa til þess hvort einhverjir aðrir hafi gert eitthvað einhvern tímann eða notað sömu orð í einhverri ræðu?

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra er með umboðið núna. Hæstv. ráðherra er ekki í stjórnarandstöðu gagnvart ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms. Það er búið. Það tímabil er liðið, þannig að hæstv. ráðherra þarf að breyta orðræðu sinni, axla ábyrgð á málaflokki sínum og horfast í augu við að þetta þingmál eykur fátækt í landinu en dregur ekki úr henni. Það er á ábyrgð hæstv. ráðherra þegar hún mælir fyrir því hér. Alveg burt séð frá því hvað hv. þingmenn Vinstri grænna hafa sagt fyrr og nú eða munu segja þá stendur og fellur ráðherrann auðvitað með sínum eigin áherslum. Það verður hæstv. ráðherra að horfast í augu við.