144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:16]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Það er auðvitað mjög mikilvægt að samfélagið beri ábyrgð sameiginlega á íbúum sínum og þegnum. Það skiptir miklu máli að við hjálpumst að þegar einhverjum gengur illa eða einhver lendir af leið. Það er auðvitað hluti af því sem hæstv. ráðherra ræðir hér og kemur fram í málinu, þ.e. að hvetja fólk til virkni og vera með ýmiss konar áætlanir og ráðgjöf og maður á mann-vinnu og svo framvegis til þess að koma fólki til hjálpar og raunverulegrar þátttöku og virkni í samfélaginu. Það er mjög gott, ég tek undir það.

Hins vegar megum við ekki gleyma því að hlutverk þeirra sem eru á þessum stað í stjórnkerfinu, þ.e. þeirra sem hafa með félagsmálin að gera, er að horfa til þeirra sem ekki geta nýtt sér úrræðin, þeirra sem ekki láta segjast þrátt fyrir öll viðtölin, þeirra sem ekki fá vinnu, þeirra sem enn eru í vandræðum þegar búið er að beita öllum úrræðunum. En þá hefst skerðingin. Það er þá sem það byrjar.

Hæstv. ráðherra talaði eins og allir hefðu fengið vinnu sem voru í prógramminu í Hafnarfirði og að þarna væri um heildstæða áætlun að ræða til þess að hjálpa fólki, eða það er sýn ráðherrans á það sem lagt er til í frumvarpinu. En við megum ekki gleyma því að það eru alltaf einhverjir sem falla milli skips og bryggju og um þá á hæstv. ráðherra að hugsa fyrst og fremst vegna þess að það er hennar hlutverk á ráðherrabekknum að gæta að því að allir geti notið sín án þess að búa við fátækt.

Ég fagna því hins vegar að hæstv. ráðherra talar um að nefndin fari vel yfir málið. (Forseti hringir.) Auðvitað vonast ég til þess að nefndin geri það og helst með það að leiðarljósi að vinna í anda þess sem kemur (Forseti hringir.) fram hjá velferðarvaktinni.