144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:19]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera örfáar athugasemdir við það frumvarp sem fyrir liggur um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og gera einkum tvennt að umræðuefni hér. Fyrra atriðið sem ég vil sérstaklega ræða er 1. gr. þar sem kveðið er á um að ráðherra gefi árlega út leiðbeinandi reglur til sveitarstjórna í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um framkvæmd fjárhagsaðstoðar auk viðmiðunarfjárhæðar fyrir fjárhagsaðstoð.

Það hefur lengi verið rætt innan stjórnmálanna og ég er ein þeirra sem hafa tekið undir þau sjónarmið að bagalegt sé hversu mikill munur er á milli ólíkra sveitarfélaga um hvaða viðmið séu nýtt við að ákvarða fjárhagsaðstoð. Rökin sem hafa verið höfð á móti því að þessar reglur séu samræmdar eru að sveitarfélögin séu sjálfstæð og það sé mikilvægt að þau hafi sjálfstæði til þess að fara með sín mál og ákveða þessar fjárhæðir. Það er væntanlega ástæðan fyrir því að hér er eingöngu talað um leiðbeinandi reglur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Hvernig rímar það við tillögu sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir gerði að umtalsefni hér áðan og fleiri hv. þingmenn hafa vafalaust gert í þessum umræðum, tillögur velferðarvaktarinnar frá því um daginn? Önnur tillagan ber yfirskriftina „Viðmið til lágmarksframfærslu“. Markmiðið er að stjórnvöld yfirfari forsendur og útreikninga sem liggja að baki fjárhæðum til lágmarksframfærslu með það að markmiði að einstaklingar, fjölskyldur og barnafjölskyldur búi ekki við fátækt. Auðvitað er það sláandi þegar við heyrum þær tölur sem hafa verið birtar frá ýmsum aðilum um fátækt fólks hér á landi, ekki síst barna.

Það er mjög mikilvægt að við sameinumst um leiðir til þess að berjast gegn fátækt. Tillaga velferðarvaktarinnar er að stjórnvöld skilgreini lágmarksframfærsluviðmið sem miði að því að einstaklingar og fjölskyldur búi ekki við fátækt. Það er svo sláandi þegar við fáum til að mynda gögn eins og þau sem núna hafa verið birt um það hvernig eignunum er skipt í þessu samfélagi þar sem 10% eiga 70% eignanna. Við vitum að það eru til eignir. Það eru engin rök fyrir því að nokkur maður eigi að búa hérna í fátækt. Þess vegna er svo mikilvægt að við tökumst á við þetta og séum þá líka reiðubúin til þess að gera það sem þarf.

Þá kem ég að því sem þetta frumvarp snýst ekki um, en það er hvernig við skiptum kökunni, hvernig við öflum fjárins. Ég hefði til að mynda fremur kosið það að sjá hér að auðlegðarskatturinn margumræddi hefði haldið áfram til þess að fjármagna það að við gætum staðið almennilega að aðgerðum sem miðuðu að því að eyða hér fátækt. Þetta heitir, virðulegi forseti, að endurskoða skiptingu kökunnar. Svona tillaga segir bara mikilvægt að setja lágmarksviðmið. Að sjálfsögðu þurfum við líka að hafa þor til að taka peningana frá þeim sem þá eiga til að þeir geti runnið til þeirra sem hafa mesta þörf fyrir þá.

Í tillögu velferðarvaktarinnar er sagt að það sé mikilvægt að stjórnvöld, ríki og sveitarfélög hefji sameiginlega vinnu með hagsmunaaðilum þannig að ná megi sem víðtækastri samstöðu um hvaða viðmið eigi að liggja að baki þegar ákvarðanir um lágmarksbætur séu teknar. Þar vitnar velferðarvaktin sérstaklega til íslenskra neysluviðmiða sem eru birt á heimasíðu velferðarráðuneytis og ég vitnaði í hér í gær.

Hvað er neysluviðmiðið fyrir fimm manna fjölskyldu? Hér er sagt í tillögu velferðarvaktarinnar, með leyfi forseta:

„Skoðað verði hvort slík viðmið eigi að vera lögbundin eða hvort þau eigi að vera til hliðsjónar (leiðbeinandi) …“

Það verður auðvitað að kalla sveitarfélögin að borðinu til að ræða þessi mál. Vissulega er sjálfstæði sveitarfélaga mikilvægt en þau hljóta að geta fallist á að það sé líka mikilvægt að sveitarfélögin tryggi öllum þeim sem þar búa mannsæmandi framfærslu.

Nú er fjárhagsaðstoð í Reykjavík, svo dæmi sé tekið, en hún er alls ekki síst þar, 174.952 kr. á einstakling samkvæmt gögnum sem ég fann á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Neysluviðmið velferðarráðuneytisins eru alltaf miðuð við það að húsnæðiskostnaður sé ekki innifalinn. Það er önnur spurning: Þarf ekki húsnæðiskostnaður að vera innifalinn í neysluviðmiðum? En gott og vel, neysluviðmið velferðarráðuneytisins fyrir einn einstakling án húsnæðiskostnaðar eru nú 234.564 kr. sem er um það bil 60 þús. kr. hærri upphæð. Ég mundi segja að það reiknaðist um fjórðungi hærri upphæð en fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar.

Mér finnst þetta vera umhugsunarefni númer eitt í þessu máli. Það þarf að samræma fjárhagsaðstoðina. Það þarf að ná sveitarfélögunum að borðinu svo að þau fallist á það að hún verði samræmd. Þar verðum við að vega og meta þau rök sem annars vegar felast í sjálfstæði sveitarfélaganna og hins vegar því að tryggja öllu fólki mannsæmandi framfærslu. Í öðru lagi þarf auðvitað að tryggja að framfærsla sé í takt við þau neysluviðmið sem meira að segja stjórnvöld gefa út. Auðvitað spyr fólk — það er sama hvert ég kem, fólk spyr: Hvernig gengur það upp að gefin séu út opinber neysluviðmið og síðan eru fjárhæðir bóta, fjárhagsaðstoð, ekki í takti við þessi opinberu neysluviðmið? Þetta er umræða sem við þurfum líka að taka í tengslum við þetta. Mér finnst velferðarvaktin nálgast þetta viðfangsefni með tillögum sínum. Það er líka umhugsunarefni af hverju við erum ekki að fást við þetta frumvarp í samhengi við þær tillögur.

Hitt sem mig langar að gera að umtalsefni hér er skilyrðing fjárhagsaðstoðar. Af því að hæstv. ráðherra fannst sérstök ástæða til þess að ræða hér afstöðu Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs og einstakra sveitarstjórnarmanna þess flokks þá hefur þetta verið margrætt á okkar fundum, flokksráðsfundum og landsfundum. Stefna okkar hefur ekki verið að fallast á slíkar skilyrðingar. Hins vegar er ljóst að fulltrúar okkar hafa tekið þátt í samstarfi þar sem þeir hafa fallist á slíkar skilyrðingar. Það liggur alveg fyrir.

Eins og hæstv. ráðherra benti á þá er alveg rétt að það eru mjög mörg sveitarfélög sem setja einhver slík skilyrði. Þá hlýt ég að spyrja: Er þetta frumvarp fyrst og fremst viðbrögð við því að sveitarfélögin vilja fá skýra lagaheimild til þess að setja slík skilyrði? Þurfum við ekki að eiga pólitíska umræðu í þessum sal um þann ramma? Þarf ekki meira að felast í honum en bara að veita sveitarfélögunum heimild til þess að setja slík skilyrði? Þurfa ekki að finnast miklu skýrari skilaboð um að það verði að vera samræmi milli þessarar aðstoðar þannig að það skipti ekki máli hvort maður búi í Reykjavík, Kópavogi, Akureyri eða hvar? Þarf ekki að taka eitthvert mið af opinberum neysluviðmiðum sjálfs velferðarráðuneytisins? Þarf þessi rammi ekki að vera skýr áður en farið er að ræða skilyrði fyrir slíkri fjárhagsaðstoð?

Ástæða þess að mjög margir í minni hreyfingu eru mjög gagnrýnir á slík skilyrði er að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er oft og tíðum síðasta úrræði fólks. Nýlega hefur atvinnuleysisbótatímabilið verið stytt. Það var gert án nokkurra raka annarra en þeirra að fólki hefði fækkað á atvinnuleysisskrá, sem ég tel engin rök í málinu í ljósi þess að tímabilið er orðið talsvert styttra en þegar nánast enginn var á þessari sömu atvinnuleysisskrá. Það eru því ekki rök hversu margir eru á skránni hverju sinni. Það skapaði vanda fyrir sveitarfélögin og aukinn kostnað. Hér kemur svo frumvarp sem veitir sveitarfélögunum heimild til að setja skilyrði og niðurstaðan er sú að að mati ráðuneytisins muni þetta frumvarp hafa jákvæð áhrif á fjárhag sveitarfélaga. Þarna er því verið að reyna að ballansera reikninga sveitarfélaganna.

Mér finnst vanta þá pólitísku sýn sem ég hefði viljað sjá í þessu frumvarpi að setja þetta í samhengi við tillögurnar sem við erum með frá velferðarvaktinni og lúta meðal annars að barnabótum og viðmiðum til lágmarksframfærslu, sem ég geri að sérstöku umræðuefni hér. Mér finnst tillögur velferðarvaktarinnar hógværar í þessum efnum miðað við það sem er verið að ræða um allan heim, að það eigi hreinlega að vera ákveðin lágmarksframfærsla fyrir alla óháð stöðu eða hvort þeir séu í vinnu eða ekki af því að það sé bara hluti af samfélagi. Það eru þær róttæku hugmyndir sem eru í gangi. Hér eru mjög hógværar hugmyndir á ferð.

Húsnæðismálin eru erfið, ekki bara kostnaðarins vegna heldur líka vegna þess að hinar efnaminni fjölskyldur í landinu, sem ekki ráða við að kaupa sér eigið húsnæði, eru í gríðarlega óöruggri stöðu. Leigumarkaðurinn er ekki virkur sem skyldi og leiguverð er hátt, ekki síst í Reykjavík þar sem staða er erfið. Nú tala ég sem þingmaður Reykjavíkur. Ég hef ekki tölu á þeim borgurum, á því fólki sem hefur komið að máli við mig og lýst erfiðri stöðu sinni á leigumarkaði, sem er sú að ef fólk á annað borð er komið inn í leiguhúsnæði þá gerir það engar athugasemdir þó að lög séu þverbrotin gagnvart réttindum þess því að það óttast ekkert meira en að missa húsnæðið. Þannig er staðan hjá leigjendum. Vissulega voru kynntar hér skýrslur frá vinnuhópum en við bíðum enn eftir að hæstv. ráðherra sýni á spilin í húsnæðismálunum.

Það er grunnþjónustan sem velferðarvaktin tekur upp. Hvað er verið að gera með grunnþjónustuna? Erum við ekki að hækka komugjöld í heilbrigðiskerfinu? Erum við ekki að takmarka aðgengi þeirra sem eru eldri en 25 ára að framhaldsnámi? Ég hef hitt marga eftir að þessi ákvörðun var tekin hér í kringum fjárlagafrumvarp. Hún var ekki kynnt í tengslum við hvítbók hæstv. menntamálaráðherra heldur var hún tekin í tengslum við fjárlagafrumvarp. Ég hef hitt mjög marga sem líta þannig á þetta að stjórnvöld séu að loka dyrunum hvað varðar aðgengi að menntun. Svo kemur þessi fína tillaga um grunnþjónustuna sem er aftur þvert á það sem þegar er búið að gera.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég legg áherslu á þau grundvallaratriði sem eru undir. Við getum sagt að hér sé verið að óska eftir blessun löggjafans á því sem er praktíserað en við göngum ekki nógu lagt í öðrum málum. Þá kem ég aftur að framkvæmd fjárhagsaðstoðar og viðmiðunarfjárhæðum, svo dæmi séu tekin. Enn skortir pólitíska umræðu um það hvort við ætlum að taka einhver raunveruleg skref fram á við í takt við tillögur velferðarvaktarinnar. Ég tel því ekki hægt að taka svona skref á meðan heildarmyndin er ekki rædd og reifuð. Hér hafa verið margir starfshópar, velferðarvaktin er með þessar tillögur og við erum með drög að tillögum um húsnæðismál. Ég vil sjá á spilin og sjá hvert á að stefna. Svo sjáum við hvað gerist í raun og veru þegar fjárlögin verða afgreidd og hvaða forgangsröð birtist þar þegar kemur að komugjöldum, aðgengi að menntun og öðru. Þó að þessar tillögur líti vel út þá vil ég hafa það á tilfinningunni að það eigi að vinna með þær. Mér finnst að það þurfi að vera ákveðinn grundvöllur áður en við getum farið að ræða hitt, virðulegi forseti.