144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Það sem helst stendur upp úr í frumvarpinu að mínu mati er skilyrðing fjárhagsaðstoðarinnar. Mér finnst það mikil tímamót þegar við erum komin á þann stað að ætla að beita miklum þvingunum til að losa okkur við þá sem veikar standa og þurfa að þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Ég hefði talið, eins og komið hefur fram í máli margra í þessari umræðu, að við þyrftum að sjá betur heildarrammann varðandi hvernig við komum til móts við fólk sem hefur misst atvinnu sína, stendur illa, hefur veikst og býr við erfið og bág kjör, hvernig við sjáum fyrir okkur að sá hópur samfélagsins hafi möguleika á að framfleyta sér og sínum. Við höfum búið við það öryggisnet að sveitarfélög hafa framfærsluskyldu. Vissulega eru ekki allir sem eiga rétt á þeirri framfærslu en með þessu frumvarpi er verið að þrengja hópinn enn frekar og herða reglur í því sambandi og gefa möguleika á að sveitarfélögin geti skert framfærsluna, fjárhagsaðstoðina um allt að helming ef viðkomandi aðili uppfyllir ekki þau skilyrði sem verða sett fram af viðkomandi sveitarfélagi eða með leiðbeinandi reglum ráðuneytisins.

Ég vil gjarnan heyra í hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra með það hvort eitthvert samráð hafi verið haft við verkalýðshreyfinguna í þessu máli. Þetta stórt mál og velferðarmál samfélagsins og verkalýðshreyfingin hefur gegnum tíðina verið sá aðili ásamt ríkisvaldinu sem hefur mótað það velferðarsamfélag sem við búum í í dag. Því miður hefur það verið að þróast í þá átt að verið er að skerða ýmislegt sem náðst hefur fram í gegnum tíðina. Við getum rifjað upp nýlegar skerðingar á rétti til atvinnuleysisbóta. Mér finnst ólíkindum ef hæstv. ráðherra hefur farið fram með þetta mál án þess að kalla að borðinu fleiri aðila en Samband íslenskra sveitarfélaga, til að ræða þetta stóra mál. Þetta er mál sem verður að horfa á í heildarsamhengi. Eins og komið hefur fram erum við samfélag, við erum ekki eitt stykki fyrirtæki sem reynir að hagræða út í eitt og losa sig við þá í samfélaginu sem ekki skila nægri framlegð. Það verða alltaf til hópar í öllum samfélögum sem standa höllum fæti og það er ekki mannsæmandi að við reynum að berja það fólk af okkur eins og einhverja óværu með því að móta reglur þannig að fólkið missir það öryggisnet sem við eigum að hafa til staðar.

Ég er hlynnt því að vinna með fólki sem er komið á þann stað að það á ekki rétt til atvinnuleysisbóta og þarf að þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, en sem er vonandi ekki þannig statt til langs tíma heldur tímabundið þótt sumir auðvitað ílengist í þeirri aðstöðu, því miður. Við eigum að styðja þetta fólk sem mest og best við að leita leiða og finna vinnu við sitt hæfi, við að mennta sig og fá þá félagsþjónustu sem hæfir hverjum og einum, vinna sem mest og best með hverjum einstaklingi. Ég er mjög hlynnt því en ég er ekki hlynnt því að halda þeirri svipu á lofti að ef hlutirnir ganga ekki upp eins og yfirvaldið segir sé fólki refsað með því að taka það af fjárhagsbótum tímabundið og lækka fjárhagsaðstoðina um allt að helming. Slík vinnubrögð finnst mér ekki einkennandi fyrir það þjóðfélag okkar sem við tölum um á tyllidögum, þjóðfélag sem stendur hvað fremst í velferðarmálum í heiminum.

Þetta eru merki þess að ríkisstjórnin er mjög hægri sinnuð, svo að við tökum þetta í stóra samhenginu. Mér þykir mjög sárt til þess að hugsa, þar sem ég veit að hæstv. félagsmálaráðherra hefur margar góðar meiningar varðandi þessi mál, að hún skuli vera komin á þann stað að hún taki undir þau últra hægri sjónarmið að sá hópur sem er í þessum aðstæðum sé einungis þarna til þess að hirða fé af skattborgurum og fólk nenni ekki að vinna og ætli sér að fara styttri leið til að nálgast fjármuni til að framfleyta sér. Ég held að það sjái það hver heilvita maður að það er eitthvað mikið að og er mjög erfitt þegar fólk er í þeim aðstæðum að þurfa að sækja um framfærslu hjá sveitarfélaginu. Þau spor eru þung hverjum þeim sem þarf að gera slíkt. Ef við ætlum að gera þetta eins og frumvarpið boðar, með þessum neikvæðu hvötum, beita refsingum, að ég tel, gæti líðan þessa fólks orðið enn verri og heilsa þess og kraftur til að berjast áfram gæti dvínað enn frekar. Ég vil segja að mér finnst að við eigum að nota þá hvata sem við þekkjum eins og starfsendurhæfingu og vinna með Vinnumálastofnun, það er mjög gott, en ekki fara út í þær miklu skerðingar sem þarna eru boðaðar.

Það hefur verið komið inn á neysluviðmið velferðarráðuneytisins sem eru rétt rúmar 234 þús. kr. á mánuði án þess að húsnæðið sé þar inni. Við vitum að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er mismunandi. Það er líka talað um það hér að vinna eigi að því að samræma fjárhagsaðstoð með leiðbeinandi reglum til sveitarstjórna. Gott og vel, það er auðvitað eðlilegt að skoða og líta til en ekki til þess að keyra þetta niður í það lægsta heldur frekar til þess að horfa til neysluviðmiða sem velferðarráðuneytið sjálft hefur gefið út. Það er langt frá þeim tölum sem maður veit að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga greiðir í dag til þeirra sem sækja um aðstoð á þeim bæ.

Ég vona að nefndin fari vel yfir þetta mál og bakki út úr þeim refsiramma sem ráðuneytið og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hafa lagt hér upp með og komi með annað sem er þá með jákvæðari formerkjum, þar sem hægt er að vinna enn betur með fólki en gert er í dag.

Það hefur einnig verið komið inn á tillögur velferðarvaktarinnar, sem eru mjög góðar og góð skýrsla og maður spyr sig: Af hverju í ósköpunum er hæstv. ráðherra að kalla eftir tillögum úr ýmsum áttum en fer svo ekkert eftir þeim? Eða hvernig falla þessar tillögur að þeim tillögum velferðarvaktarinnar að miða við lágmarksframfærslu og horfa til þess að auka barnabætur og samhæfa þá þjónustu sem er í boði og hafa öflugt stuðningsnet? Það er auðvitað eitthvað sem verður að vera, það verður að vera öflugt stuðningsnet svo að einstaklingar falli ekki þarna á milli og enginn vilji af þeim vita. Hvað bíður þessa fólks? Viljum við sjá fólk ganga betlandi um á götum eða á framfærslu einhvers konar félagsmálasamtaka, mæðrastyrksnefndar eða annarra ágætra félagasamtaka? Þau eiga ekki að taka heildarábyrgð á samfélagi okkar heldur eru þetta frjáls félagasamtök sem vilja leggja ýmsum málum lið. Ég nefni líka kirkjuna. Við viljum ekki sjá að fólk þurfi að vera bótaþegar og ganga um og kalla eftir aðstoð, að samfélagið sé búið að hafna því og það eigi engan rétt á að sækja stuðning við erfiðar aðstæður sem það stendur frammi fyrir hverju sinni.

Þetta er það sem ég vil segja í þessu fyrst og fremst. Ég hef líka miklar áhyggjur af aukinni fátækt í þessu landi og þeirri fátæktargildru sem margar fjölskyldur eru lentar í. Ný kynslóð vex upp við fátækt, börn sem hafa ekki sömu möguleika og önnur börn á að eignast það sem þykir sjálfsagt í dag, stunda íþróttir og taka þátt í því sem býðst meðan þau eru börn. Það er því miður allt of stór hópur sem býr við þær aðstæður að líða virkilegan skort og sá hópur er meðal þeirra sem þurfa að sækja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Mér finnst með ólíkindum að það sé ekki á ábyrgð samfélagsins miðað við þetta frumvarp að standa vörð um þau mannréttindi sem ég tel framfærslu vera, að hægt sé að setja fólk út á guð og gaddinn tímabundið ef það fellur ekki að regluverki ráðuneytisins eða sveitarfélagsins svo að sveitarfélagið geti sparað á hverju ári. En eins og kemur fram er reiknað með að sparnaður sveitarfélaga með tilkomu þessa frumvarps geti orðið 150 milljónir, mér finnst ég hafa séð þá tölu einhvers staðar hérna. Það er lagst lágt, finnst mér, ef þetta er það sem menn ætla að uppskera í þeim efnum og auka svo kostnað við að vinna eftir þessu nýja kerfi, aukin yfirstjórn sem fylgir því, en sparnaðurinn er þessi.

Hvert flyst þá þessi vandi? Mér finnst stjórnvöld þurfa að svara því hvert vandinn flyst. Hann hverfur ekki, þetta er svipað og þegar atvinnuleysisbótatímabilið var stytt. Þá var eins og menn reiknuðu með að það fólk sem félli af bótum mundi allt í einu fá vinnu eins og ekkert væri eða hyrfi raunverulega og atvinnuleysið minnkaði samhliða. Einhvers staðar verða vondir að vera, þótt það sé kannski ekki smekklegt að orða það þannig. Ég geri þá kröfu að við búum þessum hópum þannig umhverfi að fólk geti lifað með reisn.