144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ræðuna. Hún talaði um það að hún væri mjög hlynnt fagaðstoð félagsráðgjafa og annarra sérfræðinga við þá sem þurfa að leita til félagsmálayfirvalda í sínu sveitarfélagi. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni, það er mjög mikilvægt að fólk í erfiðum aðstæðum fái aðstoð til þess að komast út úr þeim. En þá vil ég einmitt inna þingmanninn eftir einu, ég lít svo á að það sé skylda sveitarfélaganna að veita þá þjónustu samkvæmt félagsþjónustulögum, en svo virðist vera að þau mál séu ekki í nógu góðu standi, þó að það sé eflaust mismunandi eftir sveitarfélögum, og svo virðist vera að hægt sé að stytta sér leið með því að setja á þessar skilyrðingar. Það er verið að fara inn í góð lög og breyta þeim í aðra átt, en þó er vitað að fjárhagsaðstoð er síst hlutfallslega meiri nú en hún hefur verið á öðrum tímum efnahagslægðar og að jafnaði er fólk ekki lengi á fjárhagsaðstoð, enda er hún svo lág að það dugir engum til framfærslu nema rétt tímabundið.

Svo eru einhverjir sem eiga við alvarlegri vandamál að stríða og þá munu skilyrðingar ekki skila neinu nema ýta þeim lengra út á jaðarinn. Ég vil inna þingmanninn eftir því hvort hún upplifi það sama og ég, að sveitarfélögin séu á einhvern hátt ekki að horfast í augu við það. Þetta er þjónusta sem þau verða að veita, og vilji því skilyrða til að komast hjá því að sinna lögbundnum skyldum sínum.