144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er alveg sammála því að sveitarfélög verða auðvitað að taka þá ábyrgð á sig að veita þjónustu hvort sem það er félagsleg þjónusta, stuðningur eða annað sem snýr að geðheilbrigði, sálfræðiþjónustu. Þegar fólk er komið á þann stað kallar það á slíka þjónustu. Ekki hafa viðkomandi einstaklingar fjárráð til að kaupa þá þjónustu úti í bæ, það segir sig sjálft.

Ég hafði einhvern veginn ímyndað mér að það ætti þá að fylgja þessum skilyrðingum að slíkt væri í boði án þess að viðkomandi þyrfti að leggja út í þann kostnað. Ef það er ekki, þá er það auðvitað bara til þess að gera málið enn svartara en það er nú þegar og sýnir að þetta er vanhugsað og ekki hugsað í heildarsamhengi með það að leiðarljósi að taka utan um þennan hóp, sem er samfélagsskylda okkar allra.

Hv. þingmaður kom inn á að oftar en ekki væri ekki löng viðkoma á þessum stað og það er líka vonandi að svo sé ekki. Ég mæli algjörlega með því að fólk fái sem mestan stuðning til að komast út í lífið aftur og geti orðið sjálfbjarga. En einstaklingar sem þarna eru eru mjög ólíkir og þurfa mismunandi stuðning til þess og við verðum bara að horfast í augu við það, það eru ekki allir eins. Við höfum líka talað um að öryrkjum fjölgi mikið. (Forseti hringir.) Við þurfum að horfa á þetta allt í heildarsamhengi.