144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við erum sammála um að vera hvetjandi en ekki letjandi. Ég vil gjarnan heyra viðhorf þeirra sem styðja þessa breytingu á félagsþjónustu sveitarfélaga: Hver á að bera samfélagslega ábyrgð á þeim hópum sem falla út af bótum tímabundið eða ef framfærslan lækkar um helming? Hvert á að vísa því fólki? Er verið þá að segja að það eigi að svelta það fólk til hlýðni? Ég tel ásamt fleirum að ekki eigi að beita refsingum gagnvart því fólki sem stendur hvað höllustum fæti í samfélaginu hverju sinni.

Þar erum við greinilega á ólíkri skoðun. Við sem erum vinstri menn og félagshyggjumenn teljum að ábyrgðin sé okkar sem samfélags og að aldrei sé hægt að stilla einstaklingum upp í eitthvert excel-skjal og fá út einhverja breytu sem segir: Þú átt ekki heima hér og við viljum ekki vita af þér tímabundið eða þínum erfiðleikum, og að þar með sé vandamálið leyst. Tölurnar líta þá betur út hjá sveitarfélaginu, færri þiggja fjárhagsaðstoð vegna þess að fólki er hent út í eitthvert svarthol.

Það er munurinn á nálgun hægri manna og vinstri manna á félagsþjónustu og félagsmálum og velferðarmálum almennt. Ég er ánægð með að það komi þá skýrt fram hvernig viðhorf fólks er í þessum efnum. Við eigum að bera virðingu fyrir einstaklingnum hvar sem hann er staddur hverju sinni.