144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég verð að segja að það eykur ekkert hamingju mína í umræðum um þetta mál og mér finnst það mótsagnakennt þegar menn koma hver á fætur öðrum og segja að nú sé þetta allt að verða svo miklu betra því að atvinnuástandið hafi batnað svo mikið og ástandið sé orðið viðráðanlegra og vandamálið hafi verið að minnka og hagkerfið að taka við sér og hvað það nú er. Þá hlýtur maður að spyrja á móti: Af hverju þurfum við þá einmitt að stíga skref í öfuga átt í raun og veru? Er ekki vandamálið orðið viðráðanlegra? Getum við þá ekki bara gert betur? Þurfum við að ganga alla leið í þeim efnum og beinlínis lögheimila skerðingaraðgerðir af þessu tagi?

Það eru í sjálfu sér ekki rök þó að sveitarfélög geri þetta í einhverjum mæli á gráu svæði. Alþingi getur nákvæmlega eins farið í hina áttina og sagt: Við stoppum það bara af. Við viljum að þessi aðstoð sé til staðar sem síðasta úrræðið, alltaf. Ég vísa aftur til þess sem ég sagði um að mér fyndist þetta vera mál sem ríki og sveitarfélög ættu að taka höndum saman um miklu betur en gert hefur verið og líta á þetta sem hluta af heildstæðara kerfi þar sem er tekist á við og unnið úr og unnið með aðstæðum þeirra sem lenda í því að missa vinnuna og/eða að vera langtímum saman utan vinnumarkaðarins, jafnvel þannig að þeir hafi misst rétt sinn til atvinnuleysisbóta og verða að reiða sig á framfærslu frá sveitarfélaginu. En það gerist ekki með því, eins og hefur birst manni núna, að ríkið ákveði einhliða að stytta atvinnuleysisbótatímann. Það eykur þrýstinginn frá sveitarfélögunum á að þau geti farið í skerðingar af sama tagi, væntanlega til þess að þau hafi einhverja hemla til að hemja annars vaxandi útgjöld vegna fjárhagsaðstoðar, eða þannig hefur þetta birst manni.

Það er út af fyrir sig alveg rétt og ánægjulegt að atvinnuástandið hefur batnað jafnt og þétt frá því að það náði hámarki sínu árið 2010. Og það hefur fleira jákvætt í för með sér en að vonandi fækkar þeim tilvikum þar sem fólk er í þessari stöðu. Það þýðir þá væntanlega líka að aðstæðurnar á vinnumarkaðnum gera það viðráðanlegra að bjóða upp á störf. Má ég minna á að það var eitt af því sem menn gerðu í stórum stíl þegar ástandið var sem alvarlegast. Þá tóku menn höndum saman, aðilar vinnumarkaðarins, ríki og sveitarfélög, og færðu fjármuni að hluta til út úr atvinnuleysisbótakerfinu í það að skapa störf og vinnumarkaðurinn skuldbatt sig til að bjóða upp á vissan fjölda, sveitarfélögin vissan fjölda, ríkið vissan fjölda o.s.frv. Ég sé ekki í frumvarpinu að þessu eigi að fylgja neinar slíkar skyldur eða að í bígerð séu aðgerðir sem bjóði að minnsta kosti upp á eitthvað á móti af því tagi.

Ég held að það eigi að minnsta kosti að byrja á því að nálgast þetta á jákvæðum forsendum og skoða möguleikana á jákvæðum hvötum sem ýta undir og auka líkurnar á því að þeir sem eru í þessari stöðu haldist virkir og bæti jafnvel stöðu sína með þjálfun, endurmenntun, námskeiðahaldi og öðru slíku. Þess vegna held ég að það mætti fara í alveg öfuga átt við það sem er í þessu frumvarpi og bjóða upp á hvata í kerfinu þannig að menn héldu óskertri gunnfjárhagsaðstoð en fengju svo uppbót gegn því að þeir sæktu námskeið, væru í skilgreindum virkniúrræðum og fengju þannig hvata, jákvæðan hvata, til þess að sækja í slík úrræði. Það væri líka hægt að hugsa sér að menn ynnu í þessu með því að skuldbinda sig til að hafa í boði létt störf sem hentuðu vel þeim sem væru að reyna að komast aftur út á vinnumarkaðinn og stíga þar sín fyrstu skref, og að fyrir þau störf væru greidd einhver laun sem þýddu að menn kæmu fjárhagslega talsvert betur út en að vera á fjárhagsaðstoð einni saman. Ef niðurstaðan af því að prófa einhverjar slíkar leiðir væri sú að þær hefðu ekki reynst nógu árangursríkar, þá gætu menn staldrað við og velt fyrir sér: Verður þá að fara hina leiðina að einhverju leyti með skerðingar, með því að láta hótanir um skerðingar vofa yfir mönnum? Það er óskaplega dapurleg og (Forseti hringir.) neikvæð nálgun í þessu tilviki og eiginlega get ég ekki sætt mig við hana vegna þess hvers eðlis þetta síðasta úrræði um framfærslu manna í samfélaginu er.