144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:35]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Ég hef farið yfir það nokkrum sinnum hér að — ég tók höfuðborgarsvæðið af vef Hagstofunnar því að það einfaldaði mér vinnuna í samlagningu — á höfuðborgarsvæðinu hefur svipað hlutfall íbúa verið á fjárhagsaðstoð í kjölfar efnahagslægða. Eina undantekningin núna er að hlutfallið er svipað þrátt fyrir miklu meira atvinnuleysi í efnahagsþrengingunum í kjölfar hrunsins. Það má því segja að aðgerðir fyrri ríkisstjórnar, vinnumarkaðsaðgerðir, hafi augljóslega skilað sér í því að álagið á sveitarfélögin varð minna.

Sveitarfélögin eru auðvitað mjög misvel í stakk búin til að takast á við auknar álögur, og hérna er ein af leiðunum sem litið er til, að þau fái að skilyrða fjárhagsaðstoðina, sem er auðvitað umtalsverður póstur í fjárhag þeirra, já, í sem sagt fjárlögum þeirra, ef svo má að orði komast. Það er svo mikilvægt að muna söguna og muna hvernig hlutirnir hafa verið gerðir og skoða þá í réttu samhengi. Og ég vildi óska eftir því að hv. þingmaður og fyrrverandi fjármálaráðherra færi yfir það hvernig mestu þrengingunum sveitarfélaganna var einmitt mætt til að draga úr álögum á þau í kjölfar hrunsins. Það kann að vera að ástæða sé til að fara í eitthvað svipað, að mæta þeim með svipuðum hætti, ég ætla ekkert að fullyrða um það. En það væri bara ágætt að fá þessa upprifjun því að sagan skiptir máli.