144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég gæti farið í langt mál og tæki meira en tvær mínútur að fara aðeins yfir það hvernig ég tel að sveitarfélögin hafi í sjálfu sér komist yfirleitt vel í gegnum þá erfiðleika og ekki síst vegna þess að þau nutu góðs af fjölmörgum ráðstöfunum og aðgerðum ríkisins. Þar á meðal og ekki síst nutu þau náttúrlega góðs af dugnaði ríkisins við það að afla nýrra tekna, því að sveitarfélögin fá í fyrsta lagi sjálfvirkt 2,12% af öllum sköttum sem ríkið innheimtir í gegnum jöfnunarsjóðinn. Þau fengu miklar tekjur vegna aðgerða ríkisins sem tengjast útgreiðslum séreignarsparnaðar og af mörgum fleiri ástæðum komu ráðstafanir og aðgerðir ríkisins sér mjög vel fyrir sveitarfélögin. Vissulega öxluðu þau líka byrðar, að sjálfsögðu urðu þau fyrir umtalsverðum áhrifum, ekki síst vegna þess að mörg þeirra voru mjög skuldug og höfðu þar af leiðandi lítið borð fyrir báru.

Þegar við lítum til baka yfir það tímabil og minnumst þess að atvinnuleysið fór vel yfir 9% og stóð í um 7, 8 eða 9% í tvö ár eða svo, þá held ég að varla verði annað sagt en að við höfum tekist á býsna árangursríkan hátt við það, með auðvitað mjög umfangsmiklum aðgerðum. Og það væri eitthvað í þá áttina sem ég mundi vilja sjá hér, að við værum að ræða um það hvernig með pósitífum hætti, jákvæðum aðgerðum, hvötum, stuðningi, uppbyggilegum stuðningi en ekki refsivendi sem við reyndum að vinna með þessum hópi.

Mér fyndist ekkert athugavert við það þó að ríkið eftir atvikum kæmi að því með sveitarfélögunum. Segjum sem svo að sveitarfélögin færu út á þá braut að bjóða mönnum uppbót á grunnlífeyrinn fyrir þátttöku í virkniaðgerðum og að sækja námskeið og annað slíkt, þó að því fylgdi einhver kostnaður, og ríkið byðist til að borga helming á móti þeim sveitarfélögum sem það gerðu, þau sem færu ekki út í skerðingar og legðu þær til hliðar í bili, ynnu úr vandamálinu alveg á gagnstæðum forsendum og ríkið segði: Fínt, (Forseti hringir.) við skulum koma með ykkur í það.