144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni andsvarið og þakka honum fyrir þessa upprifjun.

Það er svo mikilvægt að muna að sé viljinn fyrir hendi þá eru margar leiðir færar. Það er mjög auðvelt að segja að þeir sem fá bætur eða aðstoð af einhverju tagi þurfi að sýna ábyrgð, að slíkum réttindum fylgi skyldur og fólk þurfi að gyrða í brók og vera tilbúið til að axla ábyrgð á eigin lífi. Þetta er auðveld „argúmentasjón“, það er auðvelt að tala á þann hátt. Hver ætlar að fara að mæla upp í fólki að það þurfi ekki að taka ábyrgð?

Ég er svo sannfærð um það, og það er ekkert sem gefur vísbendingu um annað, að þegar fólk er komið í þá aðstöðu að þurfa að leita á náðir sveitarfélags síns, þá hafi mjög margt farið úrskeiðis í lífi þess, mjög oft af utanaðkomandi aðstæðum sem fólk ræður ekki við eða af einhverjum aðstæðum sem fólk þarf uppbyggingu og aðstoð við að leysa.

Ég vil spyrja þingmanninn af því að við þekkjum nú bæði margt ágætlega, ég veit ekki hvort ég ætti að vera að vísa í hann sérstaklega í þessu sambandi, en eftir hrunið höfum við átt við gríðarlegan samfélagsvanda að stríða. Efnahagshrunið hafði víðtæk samfélagsleg áhrif, einstaklingar urðu fyrir mismiklum skakkaföllum og skaða af hruninu. Er þingmaðurinn sammála því að með þessu sé verið að gera einstaklinga sem verst fóru kannski út úr hruninu ábyrga fyrir samfélagsvanda sem aðrir bera ábyrgð á en er ekki ætlað að axla?